Þetta segir Guðbrandur Bogason, löggiltur ökukennari með yfir 50 ára starfsreynslu, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Guðbrandur ritaði grein sína að kvöldi 30. desember síðastliðinn í kjölfar frétta þess efnis að fjöldi ökumanna hefði ekið út af á vegum landsins vegna skafrennings og slæms skyggnis.
„Og auðvitað var þetta veðurguðunum að kenna því samkvæmt venjum í fréttaflutningi eiga þeir að bera höfuðábyrgðina þegar svona nokkuð gerist. En hver ætlar að sækja þá til saka? Nei, hér skortir eitthvað á hæfni ökumanna til að hafa stjórn á ökutæki sínu og því fer sem fer. Meginástæðan er því að hraði ökutækjanna er of mikill miðað við aðstæður.“
Guðbrandur vísar svo í viðtal RÚV við Árna Friðleifsson, aðalvarðstjóra umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem lýsti þeirri skoðun sinni að ökumenn ækju of hratt miðað við aðstæður og misstu þess vegna stjórn á ökutækjum sínum, sem er hin rétta skýring, að mati Guðbrands.
Hann gerir svo umferðarlögin að umtalsefni þar sem meðal annars er kveðið á um að ökuhraða skuli jafnan miða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Ökumaður skili miða hraðann við gerð og ástand vegar, veður, birtu, ástand ökutækis og hleðslu svo og umferðaraðstæður að öðru leyti.
„Síðan segir áfram í 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga: „Sérstök skylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður.“ Hér á eftir kemur síðan upptalning í 15 liðum en í b-lið segir: „Þegar útsýni er takmarkað vegna birtu eða veðurs.“
Guðbrandur segir að það veki athygli að í umferðarlögum sé hvergi að finna orð um lágmarkshraða.
„Hvert er þá vandamálið? Hvers vegna hegða ökumenn sér svona? Er eitthvað í náms- og þjálfunarferli þeirra sem rangt er höndlað? Undirritaður telur sig þekkja nokkuð vel til flestra þátta ökunáms og telur að í flestum atriðum námsins sé rétt að ökukennslu staðið. Þá er ekki nema eitt eftir sem mögulega kann að hafa verulega þýðingu varðandi háttalag ökumanna, en það er þáttur Samgöngustofu og framkvæmd ökuprófanna, sem að dómi undirritaðs og margra kollega hans getur verið möguleg ástæða þess arna.“
Guðbrandur segir að undanfarin ár hafi Samgöngustofa ástundað það „úr sínum fílabeinsturni“ að gefa út allskonar furðulegar reglur sem varða framkvæmd ökuprófa. Hann er ómyrkur í máli í garð þessara reglna.
„Í þessum reglum skín víðast hvar í gegn mannvonska, refsigleði og hugsanlega þekkingarskortur. Ég ætla hér aðeins að nefna eitt atriði, hinn svokallaða „viðmiðunarkvarða ökuprófa“, sem er alveg fáránlega ruglað fyrirbæri og illa unnið. Þannig eru t.d. próftökum gefin svo og svo mörg svokölluð „refsistig“ fyrir of hægan akstur í ökuprófum. Próftaki sem vill fylgja fyrirmælum umferðarlaga og aka ekki hraðar en aðstæður og geta leyfa er með öðrum orðum hvattur til að aka hraðar, en slíkt er að dómi margra fagmanna stórhættuleg innræting,“ segir Guðbrandur og spyr:
„Það skyldi þó aldrei vera að hér væri komin ástæða þess ógætilega aksturs sem okkur hafa verið fluttar fréttir af síðustu daga?“