Íbúi í fjölbýlishúsi hér á landi segir farir sínar ekki sléttar af sambýlinu með sumum nágranna sinna. Nýlega fluttu nágrannar hans sem héldu hund út úr húsinu en íbúinn segist hafa orðið fyrir miklu ónæði af sífelldu gelti í hundinum. Þegar nýir íbúar tóku við íbúðinni tók hins vegar ekkert betra við.
Íbúinn segir frá raunum sínum í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit og hefur hún fengið töluverðar undirtektir.
Íbúinn segir að nágrannarnir sem voru að flytja út hafi ekki fengið leyfi fyrir hundinum sem þau voru með en fasteignasalinn sem seldi þeim íbúðina hafi sagt að það mætti vera með hund í húsinu. Af þessum hundi hafi hins vegar hlotist stanslaust ónæði:
„Ég talaði við þau oft þar sem þessi hundsandskoti var sígeltandi allan liðlangann daginn og þar sem ég vann heima þurfti ég að hlusta á hann endalaust. Talaði oft við eigendur að þau þurfa að gera eitthvað og „já æi greyið er bara með aðskilnaðarkvíða“ … eins og það sé einhver fkn lausn. Sagði þeim oft að þið eruð ekki með leyfi fyrir hundinum það þarf að fá leyfi fyrir að vera með hund og þau bara ó…“
Þessir nágrannar seldu að lokum íbúðina en þegar nýju eigendurnir fluttu inn fór allt í sama farið:
„Þau selja íbúðina og nýir eigendur OG AÐ SJÁLFSÖGÐU ERU ÞAU LÍKA MEÐ SÍGJAMMANDI HUND, íbúð sem þau keyptu því að fyrrum eigendur sem voru ekki búin að fá leyfi fyrir því að vera með hund sögðu að það megi vera með hund…“
Deilur um hundahald í fjölbýlishúsum hafa geisað víða um land í fjölda ára. Það er því langt í frá svo að húsið sem hinn langþreytti íbúi býr í sé einstakt tilfelli.
Nokkrir tugir athugasemda hafa verið ritaðar við innlegg íbúans. Sumir vilja meina að það einfaldlega henti hundum alls ekki að þurfa að hírast í íbúðum sem séu margar hverjar í minni kantinum. Hundar af tegundum sem þurfi mikla hreyfingu og virkni allan daginn missi einfaldlega vitið af því að húka heima á meðan eigandinn sé fjarverandi í vinnu. Aðrir vilja þó meina að sumar hundategundir ráði vel við það að búa í fjölbýlishúsi. Margir sem taka þátt í umræðunni leggja þó áherslu á að á endanum snúist þetta allt um ábyrgð hundaeigenda.
Deildar meiningar virðast vera meðal þátttakenda í umræðunni um þær reglur og lög sem gilda um hundahald í fjölbýlishúsum.
Í lögum um fjöleignarhús kemur þó skýrt fram að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki 2/ 3 hluta eigenda ef húsið hefur sameiginlegan inngang eða stigagang. Það á einmitt við um húsið sem íbúinn ósátti býr í.
Enn fremur segir í lögunum að þegar svo hátti til geti húsfélag eða húsfélagsdeild með samþykki 2/ 3 hluta eigenda veitt annaðhvort almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds eða einstökum eigendum slíkt leyfi vegna tiltekins dýrs. Geti húsfélagið bundið slíkt leyfi skilyrðum.
Þinglýsa þarf leyfinu til að það haldi samþykki sínu gagnvart nýjum eigendum í húsinu.
Ýmsar reglur eru í lögunum sem eigendur hunda- og katta í fjölbýlishúsum þurfa að fylgja, þar á meðal þessi:
„Það er skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignarhúsum að búið sé vel að dýrunum og vel sé hugsað um þau. Jafnframt skal þess gætt í hvívetna að þau valdi öðrum íbúum hússins ekki ama, ónæði eða óþægindum.“