Áslaug María, húsmóðir í Garðabænum og þriggja barna móðir, steig fram í hlaðvarpinu Sterk saman en viðtalið hefur vakið mikla athygli. Þar opnar Áslaug sig um erfiða áfallasögu sína. Áslaug hefur áður opnað sig um ofbeldið og hefur hvorki kennt sig við móður né föður þegar hún stígur opinberlega fram heldur kynnir sig sem Áslaugu Maríu.
Það kom fyrst fram í Sterk saman að faðir Áslaugar, sem beitti hana hrottalegu kynferðislegu ofbeldi árum saman, starfaði sem vinsæll tónlistarmaður. Hún nafngreinir föður sinn þó ekki en það gerði móðir Áslaugar þegar hún steig fram í viðtali við DV árið 2005.
Sjá einnig: Áslaug lýsir hrottafengnu og sjúku kynferðisofbeldi – „Pabbi minn var tónlistarmaður, allir elskuðu hann“
Faðir Áslaugar var Alfreð Alfreðsson, sem var einn fremsti djasstrommari landsins og spilaði með ótal hljómsveitum á árum áður eins og Fimm í fullu fjöri, Jazzmiðlum, Musica Quadro, Gleðigjöfum, Hljómsveit Hauks Morthens, Sextett Ólafs Gauks og Hljómsveit Finns Eydals. Hann var handtekinn fyrir brot sín gegn dóttur sinni sumarið 1987 og varði 155 dögum í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Hann var ákærður í lok ágúst sama ár og þann 6. nóvember var hann í Sakadómi Kópavogs dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa misnotað dóttur sína kynferðislega í átta ár. Alfreð lést árið 2020.
Árið 2005 steig móðir Áslaugar fram, eins og áður segir, í viðtali við DV þar sem hún nafngreindi fyrrverandi eiginmann sinn. Hún sagðist hvorki hafa hitt hann né talað við hann síðan hún var upplýst um brot hans gegn dóttur þeirra. Móðir Áslaugar, Sigurbjörg, sagði í viðtalinu að málið hefði haft afgerandi áhrif á líf hennar og meðal annars leitt hana út í alkóhólisma.
„Ég hef þurft að díla við sjálfa mig, fyrirgefa mér sem móður að hafa ekki gætt dóttur minnar betur. Það hefur verið erfiðast en sú umræða sem átt hefur sér stað að undanförnu rekur mig áfram. Því vil ég leggja mitt af mörkum með þá von að þögnin sem verið hefur um níðingana verði rofin. Þögnin er þeirra skjól og skjöldur. Það er ekki fyrr en fórnarlömb þessara manna svipta hulunni frá og fara að tala sem þeir missa vopnin úr höndum sér.“
Sigurbjörg tók fram að hún hafi sjálf verið kornung þegar hún og Alfreð byrjuðu saman og var nýorðin 18 ára þegar Áslaug kom í heiminn, en Alfreð var 13 árum eldri. Hjónabandið hafi gengið ágætlega í einhver ár en svo fór Alfreð að beita hana ofbeldi. „Hann barði úr mér alla ást.“
Áslaug María steig fyrst fram árið 2018 og opnaði sig um ofbeldið. Það ár hélt hún erindi á málþinginu Þekktu rauðu ljósin . Þar sagði hún sögu sína og þau áhrif sem ofbeldið hafði á líf hennar. Hún hlaut standandi lófaklapp fyrir hugrekkið. Áslaug sagði þá að það væri mikilvægt að opna augu samfélagsins fyrir því hvaða áhrif ofbeldi hefur á líf einstaklings. Hún hafði fyrir málþingið þjáðst í þögninni af ótta við að vera ekki trúað.
Hún lýsti fjölskyldulífinu svo að á yfirborðinu hafi allt verið fullkomið en á bak við luktar dyr var allt rotið. Móðir hennar hafi beitt hana líkamlegu og andlegu ofbeldi og faðir hennar hafði misnotað hana kynferðislega frá unga aldri. Þetta gerði að verkum að Áslaug þekkti ekki rauðu ljósin og hættumerkin í ástarsamböndum eftir að hún varð fullorðin og endaði því í ofbeldissamböndum, átti erfitt með að setja mörk og hafði alltof mikið þol fyrir óboðlegri framkomu.
Sjálf ákvað hún að rjúfa þessa kveðju og ákvað því í kringum árið 2006 að slíta á sambandið við móður sína. Hún sagði í erindi sínu að það sést ekki alltaf utan á fólki að það þjáist.
„Í dag ætla ég að vera hetja.“
Árið 2018 deildi Áslaug sögu sinni með Viktoríu Hermannsdóttur í þáttunum Málið er. Þar lýsti hún því hvernig hún kenndi sjálfri sér um ofbeldið. Hún í raun taldi að þetta væri eðlilegur hlutur á öllum heimilum en sérlega slæmt í hennar tilfelli út af því hvað hún var erfið og óþekk. Þegar vinkona hennar opnaði sig um áreitni frá stjúpföður fattaði Áslaug að ofbeldið sem hún var beitt nánast daglega var ekki eðlilegt. Hún treysti vinkonu sinni fyrir því og þá fóru hjólin að snúast.
„Ég er alin upp við það að ég sé ofboðslega lygin, erfitt barn, vandræðaunglingur og allt þetta þannig að vera trúað var rosalega sterkt í mér, að það væri enginn að fara trúa mér“
Áslaug steig aftur fram árið 2022, þá í þáttunum Heimilisofbeldi á Stöð 2.