fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fréttir

Skiptar skoðanir um óhefðbundið ástarlíf blaðamanns Morgunblaðsins – „Svona rugl endar ekki vel“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 5. janúar 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Opinskátt viðtal Vísis við fréttaritara Morgunblaðsins í Noregi, Atla Stein Guðmundsson, hefur vakið mikla athygli og ákafar umræður. Atli og Anita Sjøstrøm gengu í hjónaband í síðustu viku og var giftingarathöfnin við Miklagljúfur í Arizona í Bandaríkjunum. Sameiginleg kærasta hjónanna gaf þau saman. Atli og Anita kynntust á swing-klúbbi og stunda kynlíf með öðrum pörum.

„Við sofum náttúrulega hjá öðrum pörum líka og erum upptekin í swinginu, eina reglan hjá okkur er að við erum alltaf bæði viðstödd. Það hefur aldrei klikkað. Það er bara þannig og það er svo sem ekkert mál,“ segir Atli í viðtalinu.

Undir deilingu fréttarinnar á Facebook-síðu Vísis eru um 60 ummæli og eru sum þeirra hneykslunarfull. „Heimurinn hefur snúist á hvolf…öll verðmæti breytast í rusl,“ segir ein kona. „Viðbjóður,“ segir önnur.  – „Shit hvað þetta er furðulegt dæmi,“ segir karlmaður.

Ein kona hefur hins vegar allt annað sjónarhorn á þennan lífsstíl:

„Ekkert að þessu, frábært að þau hafi opin samskipti og njóti sín á sínum forsendum, í virðingu og með tilliti til hvers annars og annarra  Ástin er allskonar og frábært að óhefðbundin sambandsform séu að fá umfjöllun á sama hátt og barneignir, giftingar og skilnaðir hjá öðrum. Ég óska þeim alls hins besta“

Einn maður segir hins vegar:

„Það eru margar leiðir til takast á raunveruleikann en að espa kynhvötina upp úr öllu valdi er mjög neðarlega sem úrlausn samkvæmt öllu. Egóið á ekki að vera fjarstýringin heldur eigum við að stýra án girndarinnar og fýsnarinnar. Annað er útrás fyrir áföllum en eyðileggingin er þar í humátt.“

Þekktur prestur segir fjöllyndi ekki vera ósiðlegt

Séra Bjarni Karlsson skrifar áhugaverða færslu út frá viðtalinu og birtir kafla úr nýútkominni bók sinni. Bjarni segir lífsstíl Atla og eiginkonu hans í sjálfu sér ekki ósiðlegan, en leggur áherslu á mikilvægi nándarinnar í kynlífi:

„Með þessari áhugaverðu frétt um minn kæra samferðamann Atla Stein langar mig að pósta stuttum kafla úr bókinni minni frá þar síðustu jólum. Fjöllyndi í ástum er ekki móralskt rangt. Í sjálfu sér er ekkert siðferðilega rangt við kynferðislegt fjöllyndi milli jafningja í gagnkvæmu samþykki. Ég hvet okkur bara til þess að rugla fjöllyndi ekki saman við kynlíf. Maður á ekki líf með mörgu fólki. Ástæðan er sú að líf þarf tíma til að þróast. Langan tíma. Ástundun. Mannslíf. Þess vegna óttast ég að fólk sem hefur fjöllyndi að áhugamáli sé í aðra röndina að missa af lífinu. Hér kemur klausan úr bókinni:

„Ein mikilvægasta spurning sem hægt er að spyrja sem einstaklingur og samfélag er þessi: Hvað er kynferðislega aðlaðandi? Svarið við henni byggist á því að hverju við leitum í alvörunni. Já, hverju sækjumst við eftir? Hvað skiptir okkur máli? Hugmyndir okkar og tilfinningar um kynferðislega aðlöðun segja helling um það.

Líkaminn er máttugur. Það er staðreynd. Ekkert veldur meiri sársauka en vond líkamleg snerting, og ekkert linar mannlega þjáningu fremur en góð snerting.

Ég skilgreini kynlíf sem nærandi snertingu sem miðlar virðingu og samlíðan úr einum líkama yfir í annan, vekur tilfinningu fyrir því að við erum samþykkt og elskuverð. Hér er um gildishlaðna afstöðu að ræða sem ég vona að lesandinn sé búinn að sjá að byggist á vitneskju úr ýmsum áttum um mannlegt eðli. Það er mannlegt eðli að þrá líf og tengsl, en óttast dauða og höfnun. Við leitum tilgangs okkar með því að gera og vera eitthvað í sjálfræði og tryggum tengslum. Þess vegna er mannslát og kynlíf í öllum bíómyndum. Dauðinn bindur enda á sjálfræði okkar. Þess vegna erum við alltaf að skoða hann. Kynlíf er staðfesting á því að líkaminn er góður og í nærandi tengslum. Þess vegna höfum við svo ríka þörf fyrir að virða það fyrir okkur. Horfa á kynlíf annarra. Að vera sexí er að vera uppspretta og farvegur gæða og unaðar.

Ímyndaðu þér að þú rækist á félaga þinn á förnum vegi og hann segði: Það er langt síðan við höfum farið saman í skvass! Eigum við að skella okkur? Svo væri stokkið og spilað skvass. Kæmir þú svo heim til þín og segðir: Heldur þú ekki að ég hafi hitt hann Nonna, vin minn, og við stunduðum íþróttalíf! Nei, það myndir þú ekki segja, því að þetta var bara skvasstími. Menningarlíf, atvinnulíf, fjármálalíf, trúarlíf, íþróttalíf. Tungumálið geymir þá vitneskju að allt svona er spurning um langvarandi ástundun þess sem um ræðir. Kynlíf er langvarandi ástundun nærandi nándar.

Hvernig leggst þetta í skrokkinn á þér, kæri lesandi? Hvernig bregðast iðrin við? Kemur þetta heim og saman við þínar eigin hugmyndir? Leyfðu þér að svara sem hugsandi líkama.“

(Bati frá tilgangsleysi, 2023, s. 161 – 162.)“

Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, uppeldis-, fíkni- og fjölskyldufræðingur, skrifar eftirfarandi ummæli við færslu Bjarna:

„Flott skilgreining og er ég þér sammála, hinsvegar eru ekki allir (því miður fyrir þá) sem geta myndað mjög djúp tilfinningatengsl og nánd. Kynlíf er mis innihaldsríkt á milli fólks og mis tilfinningaríkt. Til er fullt af fólki sem er alveg tilbúið að deila maka sínum. Ég persónulega tel að slík hjónabönd endist ekki en það er mín skoðun og mín reynsla í starfi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Segir Þorgerði hafa skilið Kristrúnu og Ingu Sæland eftir „eins og hornkerlingar“

Segir Þorgerði hafa skilið Kristrúnu og Ingu Sæland eftir „eins og hornkerlingar“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Zelenskyy segir að mikill fjöldi rússneskra og norðurkóreskra hermanna hafi fallið síðustu daga

Zelenskyy segir að mikill fjöldi rússneskra og norðurkóreskra hermanna hafi fallið síðustu daga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Söfnun hafin fyrir syni Árna sem lést eftir að bíll hans féll í Reykjavíkurhöfn – „Árni lætur eftir sig tvo yndislega drengi“

Söfnun hafin fyrir syni Árna sem lést eftir að bíll hans féll í Reykjavíkurhöfn – „Árni lætur eftir sig tvo yndislega drengi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verðlaunateiknari hættir eftir að Washington Post neitaði að birta skopmynd – Sýndi Bezos krjúpa fyrir Trump

Verðlaunateiknari hættir eftir að Washington Post neitaði að birta skopmynd – Sýndi Bezos krjúpa fyrir Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili