Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás aðfaranótt fimmtudagsins 12. ágúst 2021. Árásin var framin á bifreiðastæði Atlantsolíu við Hólagötu, Reykjanesbæ, en árásinni er lýst svona:
„…með því að hafa slegið A, með ítrekuðum hnefahöggum, meðal annars í höfuð, þar sem A sat í ökumannssæti bifreiðar en ákærði í farþegasæti við hliðina á A, og í framhaldi eftir að A hafði
yfirgefið bifreiðina, fært sig yfir í ökumannssæti bifreiðarinnar og ekið bifreiðinni á A með þeim afleiðingum að hann hafnaði á vélarhlíf og síðan á framrúðu bifreiðarinnar. Allt með þeim
afleiðingum að A hlaut heilahristing, mar og yfirborðsáverka hægra megin á höfði, tognun og ofreynslu á hálshrygg, væg eymsli hægra megin yfir brjóstvegg og dreifð þreifieymsli á kvið.“
Maðurinn er einnig ákærður fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa í kjölfar árásarinnar ekið bíl undir miklum áhrifum fíkniefna, en meðal annars mældist mikið amfetamín í blóði hans. Lenti hann í árekstri á gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar. Er hann var handtekinn fann lögregla jafnframt rúmt gramm af amfetamíti í fórum hans.
Af hálfu árásarþola er krafist 1,5 milljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 10. janúar næstkomandi.