Jónas Sigurgeirsson útgefandi kynntist vel Íslandsvininum Edward Pettifer, sem lét lífið í hryðjuverkaárásinni í New Orleans á nýársdag. Eins og mbl.is greinir frá tengdist Pettifer bresku konungsfjölskyldunni. Hann var stjúpsonur Alexöndru Pettifer, eða Tiggy, sem gætti Vilhjálms og Harry Bretaprinsa er þeir voru börn. Karl konungur hefur haft samband við fjölskyldu Pettifer og vottað þeim persónulega samúð sína.
Öfgamaðurinn Shamsud-Din Jabbar myrti a.m.k. 14 manns í New Orleans á nýársdag og slasaði um 35, er hann keyrði pallbíl inn í mannfjölda á Bourbon-stræti, þar sem verið var að fagna nýju ári (sjá ruv.is). Meðal hinna látnu var Pettifer. Fyrir árásina hafði Jabbar lýst yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.
Edward Pettifer var mikill Íslandsvinur en hann starfaði hér mörg sumur sem leiðsögumaður fyrir laxveiðifólk. „Hann var algjört náttúrubarn,“ segir Jónas í samtali við DV. „Hann gædaði fjölda Íslendinga og var mikill gæðadrengur. Þetta er mjög sorglegt, hann var aðeins 31 árs gamall.“
Jónas minnist Pettifer í lokaðri færslu á Facebook-síðu sinni og birtir meðfylgjandi mynd af þeim félögum úr veiðiferð. Jónas skrifar:
„Ég sá hann fyrst í flugvélinni á leið til Egilsstaða, glaðbeittan og skrafhreifinn náunga. Ekki vissi ég þá að næstu þrjá daga myndum við verja öllum stundum saman úti í á. Spjölluðum saman um heima og geima á meðan hann leiðbeindi mér í veiðinni í Selá. Hann sagði mér frá því að faðir hans hefði tekið hann með í stangveiði frá sex ára aldri og smitað hann af veiðibakteríunni. Góður vinur Vilhjálms Bretaprins sem hann bar afar vel söguna. Hann var í senn fullur lífsgleði og augljóslega með 10 í lífsleikni. Góður drengur, léttur í lund, enskur í öllum háttum og hógvær. Nú er hann allur af því að einhver bandbrjálaður íslamskur hryðjuverkamaður ákvað að aka yfir fólk í á nýársgleði í New Orleans. Blessuð sé minning Edwards Pettifer.“