Landlæknir Bandaríkjanna, Vivek Murthy, kallar eftir því að áfengir drykkir verði merktir sérstaklega og þar sé varað við því að neysla þeirra geti aukið líkurnar á krabbameini, ekki ósvipað og gert hefur verið varðandi tóbaksvörur. Suður-Kórea og Írland eru dæmi um lönd þar sem slíkar reglur hafi verið samþykktar.
Segir Murty að slíkar viðvaranir hafi gefist og í ljósi upplýsinga sem sýni fram á meiri skaðsemi áfengis en áður hefur verið talið sé fullt tilefni til að vara neytendur við. Að sögn Murty megi árlega megi rekja um 100 þúsund krabbameinstilfelli og um 20 þúsund andlát til krabbameins vegna áfengisneyslu í Bandaríkjunum.
Yfirlýsing Murty hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og er áfengisiðnaðurinn ógnarstóri sagður nötra í kjölfarið. Ljósið í myrkrinu er gríðarlegur vöxtur í neyslu óáfengra drykkja, sem líkja eftir bjórum, vínum og jafnvel sterkjum drykkjum, og eru áfengisrisarnir í síauknum mæli að beina sjónum sínum að þeim markaði.
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið það út að dagleg neysla áfengis eigi að hámarki að vera tvær einingar hjá karlmönnum og ein eining hjá kvenfólki. Nýlegar rannsóknir hafa þó sýnt að um 17% af þeim sem halda sig innan þessara marka fá samt krabbamein þar sem helsta orsökin er sögð neysla áfengis.
Bein tengsl eru milli áfengisneyslu og sjö lífhættulegra krabbameina, meðal annars í lifur, munni og brjóstum kvenna.
Segir Murthy að valdið til að koma þessum breytingum á liggi hjá bandaríska þinginu en óvíst er hvort að ný ríkisstjórn Donald Trump muni svara ákallinu. Trump bragðar reyndar sjálfur ekki áfengi og hefur í raun skömm á þessum göróttu drykkjum. Má rekja það til andláts bróður hans, Fred, árið 1981, en hann átti í erfiðri glímu við Bakkus og fékk hjartaáfall 42 ára gamall sem rekja má til neyslunnar.
Þá er Robert F. Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, fyrrum alkóhólisti og enginn aðdáandi áfengisiðnaðarins. En hagsmunirnir eru gríðarlegir og vandséð er hvort að Trump og félagar taki slaginn.