Árekstrar eru komnir upp á milli gönguskíðafólks og hundaeigenda vegna gönguspora við Hólmsheiði og Rauðavatn. Gönguskíðafólk vill hafa „sporin“ sín í friði en sumir hundaeigendur telja gönguskíðafólk sína átroðning á einu af fáum lausagöngusvæðum á höfuðborgarsvæðinu.
Félagsskapur gönguskíðafólks sem kallast Sporið hefur verið að leggja gönguskíðaspor á Hólmsheiði, Langavatni, Rauðavatni og víðar. Verkefnið er sjálfboðaverkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ og nokkur fyrirtæki til að bæta leiðirnar.
Hefur gönguskíðafólk beðið hundaeigendur um að sína þessu tillit og halda sér af sporunum. Ef sporið skemmist mikið verður það fljótt ónothæft.
Ekki hafa allir hundaeigendur verið sáttir við þetta því að gönguskíðasporin hafa verið lögð á stíga á Hólmsheiði og Rauðavatni þar sem lausaganga er leyfð. Ekki eru mörg slík svæði á höfuðborgarsvæðinu. Gönguskíðafólk telur að nóg sé af stígum á svæðunum en hundaeigendur benda á að gönguskíðafólkið hafi lagt sporin í nákvæmlega þá stíga sem þeir nota. Hundarnir eru lausir og ekki hægt að koma í veg fyrir að þeir hlaupi í sporin.
Hafa gönguskíðafólk og hundaeigendur tekist á um þetta á samfélagsmiðlum. Á heimavöllum beggja hópanna og lausn sem hentar öllum virðist ekki liggja beint við.
Gönguskíðafólk segist ekki leggja spor sín á stíga heldur í jaðri þeirra. Hundaeigendur segja þetta rangt, spor hafi verið lögð á stígana sem hundaeigendur noti.
Gönguskíðafólk segir það nú ekki marga daga á ári sem hægt sé að nota til skíðaiðkunar. Hundaeigendur segja það ekki ganga að taka af þeim útisvæðið þá daga sem snjóar. Gönguskíðafólk séu gestir á svæðinu og eigi að taka tillit til þess.
Í umræðum um málið greina sumir hundaeigendur frá því að hafa lent í árekstrum við gönguskíðafólk á svæðinu.
Einn maður segist hafa verið í göngutúr með tíkina sína þegar hann mætti þriggja manna hópi gönguskíðafólks sem görguðu og létu hann og hundinn heyra það. „Ég væri ljótur, fífl og fáviti, einnig að hundurinn minn væri ógeðslegur osf.,“ segir hann. „Mér datt ekki til hugar að færa mig annað eftir þessi fyrstu kinni við fólkið á gönguskíðunum.“
Segist hann fram að þessu ekki einu sinni hafa verið að ganga í sporunum og að hundurinn hefði verið í taumi.
„Við löbbuðum ofan í sporunum restina af þeim göngutúr og fékk ekki einu sinni smá vott af samviskubiti,“ segir hann. Annar hvetur fólk til að ganga í sporin. „Gangið bara sporin þá fara frekjurnar annað,“ segir hann.
Ein kona greinir líka frá árekstri, það er í febrúar árið 2023 við Hólmsheiði.
„Manneskja á gönguskíðum snappaði á mig,“ segir hún. „Ég var að klára minn hring og skaraðist þarna greinilega við „ykkar“ svæði. Ótrúlegt að nokkur skref hjá 5kg hundi geti valdið svona mikilli reiði. Verð að viðurkenna að þetta atvik varð til þess að ég hætti að fara ein með hundinn minn að vetri til á þetta svæði.“ Segir hún að gagnkvæm virðing verði að vera til staðar til að hægt sé að deila svæðinu.