fbpx
Sunnudagur 02.mars 2025
Fréttir

Hilmar undrast áhyggjur af stöðu Íslands – „Við erum í sæmilegum málum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 31. janúar 2025 18:30

Hilmar Þór Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, undrast áhyggjur sem hafðar eru uppi um öryggi Íslands í ljósi nýlegra yfirlýsinga Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að Bandaríkin vilji innlima Grænland og muni beita öllum tiltækum ráðum til þess. Efasemdir um hollustu Trumps við NATO vekja einnig áhyggjur af öryggi Íslands.

Fjallað er um öryggismál Íslands í Heimildinni í dag. Þar segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor að komin sé upp mjög alvarleg staða innan NATO. Bandarískum stjórnvöldum undir forystu Trumps sé ekki treystandi til að verja bandalagsríki NATO, t.d. Ísland, og þeim sé heldur ekki treystandi til að beita ekki afli gegn okkur, hvort sem það sé efnahagslega, viðskiptalega eða hernaðarlega. Ekki sé hægt að líta á ummæli Trumps öðruvísi gagnvart Grænlandi. Segir Baldur að sá hornsteinn sem Bandaríkin hafi verið í öryggi Íslands gæti horfið fyrirvaralaust.

Hilmar segir þessa greiningu vera sérkennilega og segir í samtali við DV:

„Við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og erum aðilar að NATO. Varðandi Evrópu þá erum við á evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að mest af utanríkisviðskiptum okkar eru við þau ríki. Við eigum nokkuð góð samskipti við ESB og Bandaríkin. Við erum í sæmilegum málum.“

Í Heimildinni er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra að hætta sé á því að Ísland klemmist á milli í átökum milli Bandaríkjanna og Evrópu og verði eitt á báti. „Sam­starf Banda­ríkj­anna og Ís­lands sé gríð­ar­lega þýð­ing­ar­mik­ið fyr­ir Ís­lend­inga og því mik­il­vægt að vera ekki með dig­ur­barka­lega yf­ir­lýs­ing­ar um Banda­rík­in,“ segir í greininni.

Um þetta segir Hilmar:

„Það rétta er að við eigum ekki að vera með óþarfa stóryrði við neitt stórveldi nema brýna nauðsyn beri til. Þessi hugmynd að við eigum á hættu að „klemmast á milli“ og vera svo „ein á báti“ er einkennileg. Þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna eru þannig að við verðum ekki ein á báti. Bandaríkin eru nú að reyna að styrkja stöðu sína á norðurslóðum og það þjónar ekki þeirra hagsmunum að skilja okkur eftir  „ein á báti.“ Veit ekki hvað utanríkisráðherra gengur til ef Heimildin er að hafa rétt eftir henni.“

Óskynsamlegt að eiga frumkvæði að viðræðum

Hilmar segir ennfremur: „Haft er eftir utanríkisráðherra: „Þegar Úkraínustríðið byrjaði lögðum við í Viðreisn fram þingsályktunartillögu um að við þyrftum að endurmeta samstarf okkar meðal annars við Bandaríkin, við þyrftum að fara yfir varnarsamninginn.“ Varnarsamningurinn er frá 1951 og hefur reynst vel. Það væri að mínu mati óskynsamlegt fyrir okkur að eiga frumkvæði að viðræðum við stjórnvöld í Bandaríkjunum um þennan samning. Andrúmsloftið í Washington er þannig að við eigum ekki að rugga bátnum. Þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna og Íslands fara saman nú. Bandaríkin fylgjast vel með hér og þegar Donald Trump var forseti á fyrra kjörtímabili sendi hann Pence varaforseta til Íslands m.a. til að þakka okkur fyrir að vinna ekki með Kínverjum í „Belti og braut“ verkefninu áður en nokkur ákvörðun hafði verið um það tekin hér á landi. Skilaboðin eru að Bandaríkin kæra sig ekki um að önnur stórveldi nái fótfestu hér. Það er skiljanlegt út frá þeirra þjóðaröryggi og tillit hefur verið tekið til þess. Samskipti okkar Íslendinga við Kína hafa samt verið góð.“

Hilmar segir að Ísland verði að halda möguleikum á utanríkisviðskiptum út um allan heim opnum:

„Í greininni er haft eftir utanríkisráherra: „…ef hann [Trump] ætlar að fara að beita tollum og viðskiptahindrunum í gríð og erg og Evrópusambandið þá að svara í sömu mynt.“ Eins og staðan er í dag eru mest af okkar utanríkisviðskiptum á evrópska efnahagssvæðinu. Ef það verður viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og ESB þurfum við að halda öllum möguleikum opnum með utanríkisviðskipti út um allan heim. Veik staða ESB í efnahagsmálum, hugsanleg skuldakreppa á evrusvæðinu, óstöðugleiki í stjórnmálum, þar á meðal í stærstu aðildarríkjunum Frakklandi og Þýskalandi, vekur spurningar. Fyrir utan þetta er stríð á meginlandi Evrópu sem ekki sér fyrir endann á og langur listi frekar fátækra ríkja sem vill komast inní ESB sem verður dýrt. Þetta vekur upp stórar spurningar um stöðu ESB og evruna. Ríkisstjórnin hyggst láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að ESB ekki síðar en 2027.“

Eigum ekki að ögra stórveldum

„Evrópa treystir á öryggisregnhlíf Bandaríkjanna og þess vegna hefur ESB nú mjög veika stöðu gagnvart Bandaríkjunum og þetta veit Donald Trump,“ segir Hilmar ennfremur. Æskilegt hefði verið að koma í veg fyrir Úkraínustríðið:

„Það hefði verið best fyrir ESB að samið hefði verið um Úkraínu en nú eru afleiðingar þessa stríðs að koma betur og betur í ljós með óvæntum afleiðingum fyrir ýmis Evrópuríki og fyrir ESB í heild. Það er eins og a.m.k. sumir leiðtogar ESB hafi ekki verið að vinna með hagsmuni ESB í huga.“

Varðandi hugsanlegt viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og ESB bendir Hilmar á að Ísland sé ekki hluti af tollabandalagi ESB. Það séu Norðmenn ekki heldur. Aftur á móti séu Danir, Svíar og Finnar aðilar að tollabandalagi ESB vegna ESB-aðildar sinnar.

Hann telur ekki æskilegt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sækist eftir símtali við Donald Trump eins og hún hefur lýst yfir. „Þú sást hvernig hann kom fram við forsætisráðherra Kanada og Danmerkur. Nema við viljum heyra Trump krefjast þess að við borgum 5% að vergri landsframleiðslu til varnarmála. Við erum lítil og hann er ekki að hugsa um okkur nema við biðjum um það og hann er harður í horn að taka við veikari aðila.“

Hilmar telur það einnig hafa verið óviturlegt af Íslandi að styrkja vopnakaup gegn Rússum:

„Við höfum ekki neina raunhæfa leið til að verja okkur ef Rússar skera á kapla hér í kringum landið. Hin Norðurlöndin hafa nokkuð öfluga heri miðað við stærð landanna en virðast þó berskjölduð á Eystrasaltinu. Mér finnst hvorki fyrrum né núverandi ríkisstjórn hafa sýnt mikil hyggindi a.m.k. ef þau eru með hagsmuni sinna ríkisborgara í huga.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ingólfur Þór lést í Portúgal – Safnað fyrir fjölskylduna til að flytja hann heim

Ingólfur Þór lést í Portúgal – Safnað fyrir fjölskylduna til að flytja hann heim
Fréttir
Í gær

Vélráð í Vatíkaninu – Hver tekur við af Frans sem næsti páfi?

Vélráð í Vatíkaninu – Hver tekur við af Frans sem næsti páfi?
Fréttir
Í gær

Hafrún þakkar Áslaugu Örnu lífsbjörgina – „Hún var sannarlega á réttum stað og á réttum tíma“

Hafrún þakkar Áslaugu Örnu lífsbjörgina – „Hún var sannarlega á réttum stað og á réttum tíma“
Fréttir
Í gær

Amma drengsins sem banaði Bryndísi Klöru greinir frá áfallasögu hans – „Eftir það var líf hans í frjálsu falli“

Amma drengsins sem banaði Bryndísi Klöru greinir frá áfallasögu hans – „Eftir það var líf hans í frjálsu falli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Gunnars fær það óþvegið eftir ásakanapistil – Sagður hafa sent skilaboð á like-síðu Guðrúnar og brugðist hinn versti við svarleysi

Jón Gunnars fær það óþvegið eftir ásakanapistil – Sagður hafa sent skilaboð á like-síðu Guðrúnar og brugðist hinn versti við svarleysi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur handtekinn, grunaður um að hafa keypt aðgang að barnaníðsefni sem framleitt var af gervigreind

Íslendingur handtekinn, grunaður um að hafa keypt aðgang að barnaníðsefni sem framleitt var af gervigreind