Eins og greint var frá í gær hefur forsætisráðuneytið óskað eftir tillögum frá almenningi að hagræðingu í ríkisrekstri. Getur fólk sent inn tillögur í samráðsgátt stjórnvalda fram til 23. janúar næstkomandi. Þegar þessi orð eru rituð eru komnar yfir 1.000 tillögur. Óhætt er að segja að þær séu af ýmsu tagi og misvel ígrundaðar. Sum atriði koma oftar fyrir en önnur en það vekur athygli hversu mörg hafa kosið að nýta sér þann möguleika að hafa tillögur sínar ekki sýnilega í samráðsgáttinni.
Í kynningu ráðuneytisins segir meðal annars:
„Hvar og hvernig má hagræða í rekstri ríkisins? Myndum við verja opinberu fé í sömu verkefni og með sama hætti ef við værum að byrja frá grunni? Hvar mætti stokka upp eða breyta forgangsröðun? Eru dæmi um sóun hjá hinu opinbera sem auðvelt væri að taka á? Hvað myndir þú gera öðruvísi? Ríkisstjórnin óskar eftir liðsinni þínu í þessu verkefni.“
Hér er ekki rými til að nefna allar tillögur og því verða aðeins nefnd nokkur dæmi.
Þó nokkrir gera tillögur um að ráðherrar og þingmenn sýni gott fordæmi og skeri niður hjá sér t.d. með fækkun aðstoðarmanna ráðherra, með því að hætta notkun ráðherrabíla og greiða ekki þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna sem búi ekki raunverulega á landsbyggðinni styrki vegna dvalar í Reykjavík.
Nokkuð er einnig um að lagt til sé að sparað verði hjá RÚV en minna má á að fjárhagur þess er aðskilinn frá fjárhag ríkisins. Niðurskurður hjá RÚV myndi því ekki skila krónu í sparnaði hjá ríkinu.
Ýmsir hafa mikla trú á að sameining stofnanna skili hagræðingu og einn aðili býður fram krafta sín við það og við að greina nánar rekstur ríkisins til að finna fleiri möguleika á sparnaði.
Nokkuð er einnig um tillögur að umbótum á rekstri tölvukerfa ríkisins og einnig hugmyndir um sparnað í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með því að annað heilbrigðisstarfsfólks geri sumt af því sem aðeins læknar mega gera í dag. Einnig er lagt til að svo verði búið um hnútana að íbúar á landsbyggðinni þurfi síður að leita til Reykjavíkur vegna læknis- og lyfjameðferða, með tilheyrandi kostnaði fyrir Sjúkratryggingar Íslands.
Þó nokkrir vilja spara í utanríkismálum meðal annars með fækkun eða sameiningu sendiráða, úrsögn úr NATO og að hætta stuðningi við Úkraínu. Einn aðili telur það hins vegar eiga að liggja í augum uppi hvar eigi að byrja á hagræðingu í ríkissrekstrinum:
„Utanríkisþjónustan. Þarfnast ekki nánari útskýringa.“
Framhaldsskólakennari þakkar Kristrúnu Frostadóttur fyrir tækifærið til að fá að senda inn sparnaðartillögu og leggur til að starfsfólki í menntamálaráðuneytinu verði fækkað.
Það eru þó ekki bara tillögur til sparnaðar sem lagðar eru fram. Sumir leggja til leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Einn aðili leggur til meðal annars að stórútgerðin verði ríkisvædd og að allur arður af fiskveiðum renni þar með til ríkisins. Sami maður leggur einnig til að afla tekna verði Kína og Rússlandi boðin aðstaða fyrir herstöðvar á landinu og bætir því við að þannig muni Ísland einnig gæta sanngirni á alþjóðavettvangi.
Heimilislæknir leggur til að fyrstu einn til tveir veikindadagar hverra veikinda séu ekki greiddir af vinnuveitanda, heldur dragist einfaldlega frá mánaðarlaunum. Með þessu fækki heimsóknum til lækna vegna minniháttar veikinda og óskum um vottorð vegna þeirra. Með þessu geti læknar nýtt vinnutíma sinn betur. Þetta geti aukið framleiðni og minnkað kostnað ríkisins og alls samfélagsins vegna minniháttar veikinda. Á móti megi t.d. gera aðfangadag og gamlársdag alfarið að frídögum.
Einn aðili vill að öll útgjöld ríkisins vegna Grindavíkur verði stöðvuð þar sem bænum sé ekki viðbjargandi.
Nokkuð er um að lagt sé til að fullur aðskilnaður verði á milli Þjóðkirkjunnar og ríkisins og skrúfað verði þá fyrir öll fjárframlög til kirkjunnar. Í flestum þessara tillagna er þó litið framhjá því að ríkið leggur öllum skráðum trúfélögum á landinu til fé í samræmi við fjölda meðlima.
Nokkuð er einnig um að fólk leggi til að landinu verði alfarið lokað fyrir hælisleitendum og að erlendir fangar verði allir sendir úr landi.
Sú tillaga sem er einna ítarlegust kemur frá Jóni Frímanni Jónssyni sem hefur vakið mikla athygli fyrir skrif sín um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga, á samfélagsmiðlum, en hann hefur oftar en einu sinni spáð rétt fyrir um hvenær eldgos myndu hefjast. Eins og hans er von og vísa er Jón Frímann hógvær og segir að tillögur sínar sé alveg hægt að hunsa.
Jón Frímann vill meina að niðurskurður sé erfiður þar sem nú þegar sé búið að skera mikið niður hjá ríkinu. Hann telur að eitt helsta vandamál ríkisins séu verðtryggð lán sem það skuldi. Nauðsynlegt sé því að endurfjármagna þessi lán svo að ríkið skuldi aðeins óverðtryggð lán. Jón Frímann leggur einnig til að ríkið afli tekna með því að hækka skatta á ríkustu fyrirtækin og fólkið í landinu:
„Það er ekki hægt skera endalaust niður og vona það besta. Það verður alltaf að auka tekjur á móti útgjöldum ef þörf er á slíku. Ríka fólkið og fyrirtækin fara ekki neitt.“
Jón Frímann leggur einnig meðal annars til að dregið verði úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu þar sem hann sé of dýr fyrir ríkið og einnig verði dregið úr kaupum á þjónustu verktaka.
Sérstakur starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins mun fara yfir tillögurnar og niðurstöðurnar verða nýttar við að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í ríkisrekstri, samkvæmt kynningu ráðuneytisins í Samráðsgáttinni.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Vísi að hún hefði góða reynslu af samráði við almenning og gaf því undir fótinn að farið verði eftir a.m.k. einhverjum tillögum í þeirri vinnu sem framundan er við að hagræða í rekstri ríkisins:
„Ég hef mjög góða reynslu af samráði við almenning. Bæði í opnu fundarformi og í beinum tilmælum. Almenna þekkingin reynist gjarnan vel. Ef sömu tillögurnar koma aftur og aftur upp þá er einfaldlega eitthvað til í þeim.“