„Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessari áskorun sem ég henti í rétt í þessu,” spyr Vilhjálmur á Facebook-síðu sinni þar sem hann birtir umrædda áskorun.
Hann segir að launafólk hafi þegar stigið stórt og mikilvægt skref með því að gera hófstillta langtíma kjarasamninga. Samninga sem voru gerðir með það markmið að draga úr verðbólgu, lækka vaxtakostnað og tryggja stöðugleika sem verndar heimili landsins.
„Nú er komið að ykkur – fyrirtækjum, sveitarfélögum, ríki, fjármálastofnunum, tryggingarfélögum og orkufyrirtækjum – að axla ábyrgð og standa með launafólki og heimilum,“ segir hann og birtir kröfur í nokkrum liðum sem eru meðfylgjandi:
Vilhjálmur segir að lokum að sérstaklega sé skorað á tryggingarfélög, bankana og orkufyrirtækin en í færslu í gær gagnrýndi Vilhjálmur hækkun trygginga hjá tryggingafélaginu VÍS.
„Þetta ár byrjar eins og öll önnur þ.e.a.s fyrirtæki og sveitarfélög halda uppi viðteknum hætti og varpa hækkunum miskunnarlaust á almenning í upphafi hvers árs! Ég fjallaði rétt fyrir áramót um umtalsverða hækkun fasteignagjalda hér á Akranesi þar sem t.d. fólk í fjölbýlishúsum er að fá yfir 17% hækkun. Í morgun fékk ég sent frá manni yfirlit yfir hækkanir á tryggingum hjá VÍS en þær nema 14% en engar breytingar voru á hans tryggingum milli ára og hefur hann verið tjónlaus í tvö ár,” sagði hann í færslunni í gær.
Í færslu sinni í morgun segir hann óásættanlegt að hagnaður fyrirtækja og stofnana byggist á neyð almennings.
„Fjármálakerfið, tryggingafélög og orkufyrirtæki verða að axla ábyrgð með því að endurskoða vaxtakjör, tryggingariðgjöld og orkuverð. Hagsmunir heimila og launafólks verða að vera í forgangi. Launafólk hefur þegar axlað ábyrgð með markmiðum sínum um verðstöðugleika og lækkun vaxtakostnaðar. Krafa þjóðarinnar er nú skýr: Axlið ábyrgð – hættið að auka byrðar á launafólk og heimilin í landinu – og gerið það núna!“