Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool í fyrrinótt. Frá þessu greinir Vísir. Björn Ívar Jónsson, 21 árs, heldur með Liverpool í ensku knattspyrnunni og skellti sér því með fjölskyldumeðlimum til Bretlands til að sjá lið sitt á heimavelli.
Björn gerði sér glaðan dag í fyrrinótt og skellti sér á knæpu. Það fór ekki betur en svo að þegar hann var á leið sinni út réðst hópur unglinga á hann að tilefnislausu. Björn hlaut höfuðáverka í árásinni og var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem hann var um tíma í öndunarvél. Vísir ræddi við föður Björns, Jón Arnar Stefánsson, sem segir son sinn hafa verið í alvarlegu ástandi um tíma. Betur fór þó en á horfðist og Björn var útskrifaður af sjúkrahúsinu í gær.
Sjö manns hafa verið handteknir vegna málsins, sex þeirra eru unglingar á aldrinum 15-18 ára. Sá elsti var 38 ára. Ungmennin ganga nú laus gegn tryggingu en þeim elsta hefur verið sleppt.
Það hitti svo vel á að læknirinn sem Björn hitti fyrir á sjúkrahúsinu er líka mikill Liverpool-aðdáandi og ætlar að tryggja að Björn komist á leikinn á sunnudag þar sem Liverpool mætir nágrönnum sínum í Manchester United.