Þú hefur kannski séð myndbönd frá fjarlægum stöðum þar sem mörg hundruð drónar mynda fallegt mynstur á næturhimninum. Ímyndaðu þér síðan að þú liggir í skotgröf og skyndilega birtist stór drónasveimur á himninum og stefni í átt að þér. Þessir drónar eru ekki með falleg ljós, þeirra í stað eru þeir með vopn eða sprengiefni.
Drónar eru mikið notaðir í stríðinu í Úkraínu en við erum ekki alveg komin á þann stað þar sem mörg hundruð eða jafnvel mörg þúsund drónar eru notaðir samtímis til árása á ákveðið skotmark. En líklega er það bara spurning um tíma hvenær það gerist.
Það eru aðallega sérþjálfaðir drónaflugmenn sem stýra drónunum, sem eru notaðir í stríðinu í Úkraínu, og eru þeir yfirleitt staðsettir að baki fremstu víglínu. En í framtíðinni gæti það verið gervigreind sem stýrir þeim og sér um samhæfingu árása mörg hundruð dróna á sama tíma.
Það er sannkölluð martröð fyrir hermann eða skipstjóra skips að sjá stóran drónasveim stefna að sér og þá er fátt til ráða.
En fljótlega gæti orðið breyting þar á því Bretar eru tilbúnir með nýtt vopn sem nefnist „RFDEW“, sem er skammstöfun fyrir „Radio Frequency Directed Energy Weapons“. Eins og nafnið bendir til, þá notast vopnið við útvarpsbylgjur til að skjóta dróna niður.
RFDEW er ekki bara ætlað að skjóta einn dróna niður í einu því það er hannað til að geta skotið heilu drónasveimana niður.
Breska varnarmálaráðuneytið skýrði frá þessu á samfélagsmiðlum og segir að vopnið geti hæft allt að 10 dróna í einu í allt að eins kílómetra fjarlægð. Dugir eitt skot af hátíðnibylgjum til að eyðileggja drónana.
Það skemmir ekki fyrir að eitt skot úr vopninu kostar aðeins sem nemur um 20 íslenskum krónum og er því mjög ódýr valkostur samanborið við notkun orustuþota, flugskeyta eða annarra varnarvopna.
Það er líka hægt að nota vopnið til að eyðileggja dróna á landi eða í vatni. Hátíðnibylgjurnar eyðileggja rafkerfi drónana og þeir verða því óvirkir.