Skúli Gunnar Sigfússon, gjarnan kenndur við veitingakeðjuna Subway, tekur opinbera einkahlutafélagið Isavia til bæna fyrir að eyða formúu af peningum í dýrasta auglýsingapláss ársins, rétt fyrir áramótaskaupið. Í aðsendri grein sem birtist fyrir stundu á Vísi segir Skúli að flest fyrirtæki á einkamarkaði hafi þurft að huga verulega að kostnaði í því efnahagsumhverfi sem ríkt hefur hérlendis undanfarið, það gildi greinilega ekki um fyrirtæki sem almenningur eigi.
„Isavia ohf. er í eigu okkar allra og þar af leiðandi má segja að þjóðin eigi þá fjármuni sem stjórnendur Isavia eru að höndla með. Annað hvort hafa þeir peningar komið frá okkur skattgreiðendum eða frá innlendum og erlendum ferðamönnum og flugfélögum sem fara um flugvelli á Íslandi, aðallega Keflavíkurflugvöll. Allt að einu eru fjármunirnir sameign okkar Íslendinga.
Mig rak því í rogastans þegar ég sá að Isavia hafði látið framleiða eina lengstu auglýsingu sem ég hef nokkurn tímann séð í sjónvarpi á Íslandi og lét birta hana í dýrasta auglýsingatíma sem til er í íslenskum fjölmiðlum, fyrir áramótaskaup RÚV á liðnu gamlárskvöldi.
Isavia ohf. birti rétt fyrir skaup ímyndarauglýsingu um Keflavíkurflugvöll, sem var hátt í tvær mínútur að lengd. Þessi eina birting kostaði Isavia rétt rúmar 3 milljónir króna. Ég leyfi mér að giska á að framleiðslan á þessari auglýsingu hafi kostað a.m.k. annað eins, en treysti því að stjórnendur Isavia muni upplýsa almenning um það. Á sama tíma birti Icelandair, sem hefur þurft að huga að hverri krónu í rekstri sínum, eldri auglýsingu sem við höfum séð áður. Einkafyrirtækið sýndi ráðdeild en opinbera fyrirtækið tók bara upp veski almennings. Auglýsingin var aftur sýnd á RÚV á nýársdag og mun væntanlega birtast í styttri útgáfu næstu daga,“ skrifar Skúli.
Furðar Skúli sig einnig á því að um ímyndarauglýsingu hafi verið að ræða og spyr að hverjum auglýsingum beindist og hver hafi verið tilgangur hennar.
„Við getum gefið okkur að svo til allir sem horfa á áramótaskaupið séu Íslendingar og ljóst er að ekki er hægt að fljúga um aðra flugvelli til útlanda en flugvelli í eigu Isavia. Það má því spyrja hver tilgangurinn var með þessari rándýru auglýsingu? Getur verið að Isavia sé að bregðast við samkeppni frá Seyðisfjarðarhöfn, sem er svo gott sem eina leiðin til að komast til og frá landinu á annan hátt en um Keflavíkurflugvöll? Getur verið að markaðsdeild Isavia sé svo umhugað um að réttlæta tilveru sína að hún hafi látið búa til þennan furðulega gjörning? Ég hef ekki hugmynd um ástæðuna og spyr því stjórnendur Isavia hreint út: Hver er tilgangurinn með að eyða almannafé í þessa auglýsingu? Eigum við von á reglulegum tveggja mínútna auglýsingum frá ríkisfyrirtækjum í dýrustu auglýsingatímum ljósvakamiðla?“
Bendir Skúli ennfremur á að Isavia hafi gengið illa að byggja upp Keflavíkurflugvöll frá því að ferðamannabylgjan skall á okkur Íslendingum fyrir 1-2 árum. Það hafi verið gert í bútasaumum og flugvöllurinn orðinn eftirbátur annarra vestrænna flugvalla.
„Landgangar eru alltof fáir og farþegar þurfa iðulega að hírast í rútum milli flugstöðvar og flugvéla sem lagt er úti á hlaði líkt og tíðkast í þróunarlöndum. Margir verða forviða yfir sóðaskapnum á flugvellinum, enda þrifum í almennum rýmum oft ábótavant, snjór ekki ruddur á veturna frá gönguleiðum úr flugvélarútum inn í komurými og á sumrin eru sömu gönguleiðir ekki sópaðar og þaktar sandi og óhreinindum. Ekki hefur tekist að koma í gagnið sjálfsafgreiðslukössum fyrir vegabréf í komusal í á annað ár og þar standa þeir draugalegir og huldir plasti fyrir allra augum og úreldast hægt og rólega. Líklegast væri nær að verja fjármagni í að laga það sem miður hefur farið upp á Keflavíkurflugvelli frekar en að eyða því í dýrar ímyndarauglýsingar sem gefa ranga mynd af stöðu mála á flugvellinum,“ skrifar Skúli.
Segist hann vera á þeirri skoðun að ofh-væðingin sem átti sér stað fyrir 20 árum hafi mistekist hrapalega. Gegnsæi og skilvirkni hafi ekki aukist en stjórnendur þeirra séu hins vegar farnir að líta á þau sem sín einkafyrirtæki og reka þau ábyrgðalausir gagnvart eigendum sínum.