Þórarinn Ingi skrifaði pistil sem birtist í Morgunblaðinu í gær þar sem hann viðraði áhyggjur sínar af boðuðum auðlindagjöldum á okkar stærstu atvinnugreinar.
„Þessar atvinnugreinar hafa drifið áfram hagvöxt í landinu og skapað verðmætar útflutningstekjur í þeirri hörðu alþjóðlegu samkeppni sem þær búa við. Sporin hræða vissulega þegar kemur að þessum málaflokkum, en síðasta vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna kjörtímabilið 2009-2013 hóf þá vegferð að ætla að umturna sjávarútvegskerfinu með innköllum aflaheimilda. Sú vegferð varð til þess að fyrirtæki í sjávarútvegi fóru að halda að sér höndum, frost varð í fjárfestingum og óvissa skapaðist meðal þeirra þúsunda sem starfa í greininni,“ sagði Þórarinn Ingi og bætti við að vanda yrði til verka þegar gjaldheimta er boðuð af atvinnulífinu.
„Hin óljósa stefna nýrrar ríkisstjórnar verður til þess að fyrirtæki í greininni halda að sér höndum í fjárfestingum. Það þjónar ekki hagsmunum samfélagsins,“ bætti hann við og tók fram að íslenskur sjávarútvegur væri hátækniiðnaður sem hefði borið íslenskt hagkerfi uppi í logni og stormi í gegnum tíðina.
Sigurjón, sem sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn á árunum 2003 til 2007, er þeirrar skoðunar að Þórarin Ingi eigi að fara sér hægt í umræðu um þessi mál.
„Stundum er gott að hafa vit á því að þegja,“ segir hann í færslu sinni í gærkvöldi og heldur áfram:
„Hér er Þingmaður Framsóknar að vanda digurbarkalega um fyrir nýrri ríkisstjórn – Boðskapurinn er að ekki megi hnika við einu né neinu þegar komið er að stjórn fiskveiða, en hvernig sem á það er litið þá hefur kerfið misboðið réttlætiskennd þjóðarinnar og skilað minni afla í öllum tegundum sem hafa verið kvótasettar,“ segir Sigurjón og rifjar upp mál sem Þórarinn Ingi hefur komið að í gegnum tíðina.
„Það væri svo sem í góðu lagi ef helstu afrek kappans væru ekki að lögleiða ósvífna einokun með kjötafurðir og stefna framtíð grásleppuveiða við strendur Íslands í algert uppnám og með svo óvandaðri lagasetningu að hann var kærður fyrir brot á siðreglum þingsins. Væri ekki skynsamlegt hjá Þórarni Inga að hafa hægt um sig a.m.k. þar til búið er að greiða úr þeim ruglanda sem hann átti stóran þátt í að koma á, í þágu örfárra og á kostnað þjóðarinnar?“