Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og vísar í svar frá Fangelsismálastofnun við fyrirspurn blaðsins. Í blaðinu kemur einnig fram að aldrei í sögunni hafi jafn margir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og í fyrra, eða 298 einstaklingar, og voru 70% með erlent ríkisfang.
Hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplána dóma hér á landi hefur farið hækkandi á síðustu árum. Í umfjöllun Morgunblaðsins er bent á að hlutfallið hafi verið 17% árið 2021, 21% árið 2022 og 28% árið 2023. Í fyrra var hlutfallið svo komið í 33% sem fyrr segir.
Íslendingum sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald hefur einnig fjölgað, ef marka má tölur Fangelsismálastofnunar sem Morgunblaðið vísar til. Árið 2024 voru 90 Íslendingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald samanborið við 59 Íslendinga árið 2023.