Maður um fimmtugt fékk vægan dóm í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun desember fyrir hrottalega líkamsárás sem hann framdi fyrir þremur og hálfu ári.
Hinum ákærða var gefið að sök að hafa sunnudagskvöldið 11. apríl árið 2021 ráðist á mann fyrir utan íbúð á annarri hæð í fjölbýlishúsi. Hann var sagður hafa slegið brotaþola a.m.k. tvisvar með krepptum hnefa í höfuðið en við höggin féll brotaþoli í gólfið. Hann var sagður hafa þrýst á hnakka þolandans á meðan hann lá á maganum á gólfinu og eftir að þolandinn var staðinn upp í seinna skiptið slóð árásarmaðuinn hann í höfuð og búk með stólfæti svo hann féll í gólfið.
Hann var síðan sagður hafa dregið manninn meðvitundalausan eða meðvitundarlítinn fram á stigapall fyrir framan íbúðina, niður stigann og út á bílastæði fyrir utan húsið. Brotaþoli missti a.m.k. eina tönn og nokkrar aðrar tennur losnuðu og duttu úr nokkru síðar og/eða voru fjarlægðar. Hann hlaut 4-5 sm sár vinstra megin á hvirfli, lítið sár aftanvert á vinstra eyra, tvö sár á hægri augabrún, sár á vinstri augabrún, glóðaraugu á báðum augum, blæðingu í hvítu beggja augna, mikla bólgu yfir hægra augnloki, blæðingu í forhólf og glerhlaup og bjúg í sjónhimnu á hægra auga og sjónskerðingu og sjóntruflanir á báðum augum, mar á enni, sár og bólgu yfir nef og nefrót, mar yfir báðum kinnbeinum og á neðri vör og sést móta fyrir mynstrun sums staðar, mynstrað mar aftanvert á hálsi og upp í hnakkagrófina og hnakkann, mynstraða marbletti yfir allri hryggsúlunni og út frá henni og niður undir mjaðmagrind, dreifða marbletti víðsvegar um líkamann, þar á meðal mar yfir vinstri mjaðmakambi, mynstraða 2-2,5 sm línu á vinstra herðablaði, mynstrað línulega 2 sm breitt mar yfir hægra herðablaði og út á hægri öxl; mikla höfuðverki og svima og langvarandi andlegar afleiðingar, vanlíðan og kvíða.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. Var það virt honum til refsilækkunar, sem og það að hann hefur ekki gerst brotlegur við lög áður.
Var hann dæmdur í átta mánaða skilorðbundið fangelsi. Hann þarf hins vegar að greiða brotaþola rétt rúmlega fjórar milljónir króna í miskabætur.