Lögin sem keppa um að verða framlag Íslands í Eurovision-söngvakeppninni voru kynnt á föstudaginn í síðustu viku. Aðdáendur keppninnar víða um heim fylgjast spentir með forkeppnum annarra þjóða og ísraelskir aðdáendur voru fljótir að taka eftir því að lagið Róa með bræðrunum í Væb var sláandi líkt vinsælu ísraelsku danslagi.
Lagið kallast Hatunat Hashana og er í flutningi Itai Levy og Eyal Golan. Höfundur lagsins er þó Ofir Cohen og hann hefur sagt í samtali við ísraelska miðla að hér sé um grófan þjófnað að ræða og hann hefur leitað til lögmanna.
Matthías Davíð Matthíasson úr Væb kom að fjöllum þegar DV bar gagnrýnina undir hann á mánudaginn og sagðist almennt ekki hlusta mikið á ísraelska tónlist og persónulega þyki honum lögin „gjörólík“. Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri keppninnar, sagði í samtali við Vísi að RÚV sé með málið til skoðunar.
Segir í ísraelska miðlinum Israel Hayom í frétt sem birtist á mánudaginn: „Eftir kaldar kveðjur Íslands til Ísrael í tengslum við Eurovision árið 2024 hefur þjóðin nú verið sökuð um grófan þjófnað á einum stærsta brúðkaupsslagara landsins. Viðlagið í laginu Róa eftir teknódúóið Vibe er sláandi líkt viðlagi ísraelska lagsins.“
Miðillinn ræddi við höfund ísraelska lagsins, Ofir Cohen sagði: „Síðan í gær [sunnudag] hef ég fengið tug símtala og skilaboða á Instagram og TikTok um líkindi laganna. Sem höfundur er það spennandi og uppörvandi að sjá tónlist mína hafa áhrif og veita innblástur um allan heim. Það er mér mikilvægt að koma því skýrt á framfæri að hér er ekki um að ræða innblástur heldur hreinan og beinan stuld á minni vinnu. Málið er nú þegar komið í hendur lögmanna minna sem eru bestu fagmennirnir til að takast á við mál sem þetta.“
Sérstaklega er tekið fram í fréttinni að í fyrra hafi tónlistarmaðurinn Bashar Murad, Palestínumaður, tekið þátt í Söngvakeppninni og farið fremstur í flokki gagnrýni Íslands gegn þátttöku Ísrael í keppninni.
Í annarri frétt miðilsins um málið kemur fram að lagið er spilað í nánast öllum stærri samkomum landsins og hafi ísraelskir netverjar strax tekið eftir því hvað lögin eru sláandi lík eftir að lögin um söngvakeppnina voru kynnt á föstudaginn, en ísraelski Eurovision-miðillinn Euromix fjallaði um íslensku keppendurnar strax á föstudaginn og strax á laugardaginn hafði miðillinn bent á líkindi laganna.
Fljótlega eftir að lögin í Söngvakeppninni voru birt á YouTube voru ísraelskir aðdáendur mættir í athugasemdirnar til að lýsa yfir reiði sinni á þessum meinta þjófnaði. „Þetta er bókstaflega afrit af laginu Hatunat Hashana með Eal Golan og Itay Levi,“ skrifaði einn. Annar skrifaði: „Þeir breyttu ekki einu sinni hljómunum. Eru bara ekkert að fela þetta, hvernig héldu þeir að enginn tæki eftir þessu?“
En var líka bent á fleiri lög sem netverjum þóttu lík Róa sem sýnir kannski hvað lög geta oft verið áþekk. Til dæmis taldi einn að Róa væri sláandi líkt finnska popplaginu Pumppaa með Portion Boys sem kom út fyrir 11 árum.
Og svo finnska laginu Vox Populi með Mikael Gabriel sem kom út á síðasta ári.
Eins og áður segir kannast strákarnir í Væb ekki við lagastuld en af ísraelskum fréttum má ráða að höfundi Hatunat Hashana þyki líkindin of mikil til að Róa geti talist frumsamið. Nú er bara spurning hvort lögmenn hans hafi samband við RÚV áður en framlag Íslands í Eurovision verður valið eða hvort þeir haldi að sér höndunum til að sjá hvort lagið verði sent til Sviss þar sem Eurovision fer fram í ár.