Oleksandr Syrskyi, yfirmaður úkraínska hersins, sagði í samtali við TSN sjónvarpsstöðina að 434.000 rússneskir hermenn hefðu fallið og særst á síðasta ári. Þar með er heildarfjöldi fallinna og særðra rússneskra hermanna í stríðinu kominn í 819.000 miðað við það sem hann sagði.
Rússar hafa náð meira landi undir sig í Úkraínu síðasta árið en fórnarkostnaðurinn hefur verið gríðarlegur, bæði í mannslífum og hergögnum.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagði í greiningu sinni á mánudaginn að nú séu Rússar að reyna að auka við mannafla sinn með að taka konur inn í herinn. Segir ISW að byrjað sé að skrá bæði faglærða og ófaglærða karla í herinn og konur og eigi að senda þetta fólk á vígvöllinn í Úkraínu.