Margrét skrifaði færslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún segir að hún og Inga hafi verið vinkonur um árabil og gengið í gegnum súrt og sætt saman. En nú virðast vinslit hafa orðið á milli þeirra ef marka má skrif Margrétar.
„Ég studdi við bakið á henni, kaus hana að sjálfsögðu og fékk marga til að kjósa hana. Hún hefur ekki látið heyra í sér eftir að hún komst í ríkisstjórn þrátt fyrir loforð um það og ekki svarað símtölum eða hringt til baka, nú var hún að blokka mig fyrir að senda henni skilaboð um að mér væri misboðið yfir þessari hegðun,“ segir Margrét og bætir við:
„Ég skrifaði til hennar að mér fyndist mjög leitt að sjá þessa tækifærismennsku og svik við vini sína þegar það hentar.“
Margrét birtir meðal annars mynd af sér með Ingu þar sem allt lék í lyndi.
„Hún þóttist mjög þakklát fyrir stuðning okkar fyrir kosningarnar og við mæðgur fórum á kosningavökuna hjá FF. Við deilum meira að segja sömu hundafjölskyldu, ég gaf henni hundinn hennar mömmu Birtu minnar, og þær mæðgur fá greinilega aldrei að hittast meir, og ég búin að segja Ingu að Birta mín sé hjartveik, og hún kallaði hana alltaf ömmustelpuna sína, en þekkir okkur ekki lengur,“ segir Margrét og er augljóslega sár og svekkt.
Hún vandar Ingu ekki kveðjurnar og á ekki von á því að ríkisstjórnin verði langlíf.
„Sjaldan séð eins mikið eftir atkvæði mínu, ömurlegt þegar að fólk verður valdasjúkt og svífst einskis fyrir peninga og völd, nokkuð sem hún hefur oft gagnrýnt sjálf en hagar sér nú á sama hátt ef ekki verr ein þeir sem hún gagnrýndi. Gef þessari stjórn nokkra mánuði þar til hún springur, enda nánast allt verið svikið. Varist eftirlíkingar!“
Hart hefur verið gengið að Ingu eftir kosningarnar og kannski sérstaklega af Morgunblaðinu sem gagnrýnt hefur hana og flokk hennar. Inga fékk að lokum nóg í gær og skrifaði kraftmikla færslu á Facebook þar sem hún sakaði fjölmiðla um að koma fram við fólkið í landinu eins og fífl.
„Ég vil senda ykkur öllum hjartans þakkir fyrir að standa vaktina með okkur þegar þeir sem tapað hafa völdum eyða allri sinni orku í að sverta Flokk fólksins sem mest þeir mega. Alþingi ekki einu sinni komið saman hvað þá að þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hafi komið fram. Hvernig dettur nokkrum manni i hug að tala um svikin loforð án þess að hafa séð verkin sem við ætlum að vinna. Óvandaðir falsfréttamiðlar í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla koma fram við fólk eins og fífl. Ekki missa vonina því hún er yfir og allt um kring,” sagði Inga meðal annars.