Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, segir ekki heiðarlegt af Morgunblaðinu að reyna skráningu sem verið sé að breyta tortryggilega. Bendir hann á að formaður Sjálfstæðisfélags hafi skrifað frétt þess efnis. Segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að fara í naflaskoðun og hætt að vera þjónustumiðstöð auðmanna.
„Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir. Þeir vilja líka komast hjá ákveðnum vandræðagangi í sínum flokki sem er nánast formannslaus. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er í mikilli fýlu,“ sagði Sigurjón, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun. Þar var hann ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Sigurjón sagði þá umræðu sem búið væri að spinna upp um loforðasvik Flokks fólksins vera hreina og klára vitleysu. Ríkisstjórnin sé nýmynduð og Inga Sæland sé núna á fullu í ráðuneytinu að undirbúa frumvörp til að leiðrétta kjör lífeyrisþega og öryrkja. Þingið er ekki komið saman eftir kosningar.
Sagði hann vandræðagang Sjálfstæðisflokkinn mikinn. Enginn hafi boðið sig fram til formennsku nema listamaðurinn Snorri Ásmundsson.
Aðspurður um skráningu Flokks fólksins sem félagasamtaka en ekki stjórnmálaflokks sagði hann þetta vera smáatriði sem væri verið að breyta. Fleiri stjórnmálaöfl væru í sömu sporum. Benti þáttarstjórnandi á að Vinstri græn hefðu einnig átt eftir að breyta skráningu hjá sér.
Benti hann á að Flokkur fólksins hefði verið rétt skráður þar til lögum var breytt. Til hafi staðið að breyta skráningunni í nóvember síðastliðnum en þá hafi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins gefist upp og boðað var til kosninga.
Um sé að ræða formsatriði sem verði breytt á landsfundi þann 22. febrúar næstkomandi. Aðspurður um endurgreiðslu á ríkisstyrkjum sagði Sigurjón að það yrði gert ef stjórnvöld fara fram á það.
Benti Sigurjóns einnig á að Morgunblaðið hefði skrifað um þetta og sagði að þar væri ekki heiðarlega fjallað um málefni Flokks fólksins. Vísaði hann þar óbeint til þess að Morgunblaðið sé í eigu stórútgerðarinnar sem eru á móti auknum strandveiðum.
„Blaðamennska Morgunblaðsins þegar kemur að Flokki fólksins hún er ekki alveg heiðarleg,“ sagði Sigurjón. Nefndi hann að blaðamaðurinn sem skrifaði frétt um málið sé formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík. „Það er ágjöf á flokkinn frá þeim auðmönnum sem við erum að breyta hjá örlítið í þágu lítilla atvinnurekenda, þessir strandveiðibátar.“