Irving Alexander Guridy Peralta, 29 ára, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás sem varð Karolis Zelenkauskas að bana. Dómurinn er skilorðsbundinn til þriggja ára.
Árásin átti sér stað aðfaranótt laugardagsins 24. júní 2024 á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti. Hinn látni var 25 ára og frá Litháen.
Sjá einnig: Staðfest að banamein Karolis var eitt höfuðhögg
Irving var ákærður „fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 24. júní 2023, inni á skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti 7 í Reykjavík, fyrirvaralaust slegið A, kennitala […] , eitt högg efst á vinstri hluta hálsins, aftan við vinstra eyrað, þannig að hann fékk slink á höfuðið, en afleiðingarnar voru þær að hann lést af völdum altæks heiladreps vegna innanskúmsblæðingar af völdum rofs á vinstri aftari neðri hnykilsslagæðinni.“
Mbl.is greinir frá og hefur eftir Dagmar Ösp Vésteinsdóttur, saksóknara hjá héraðssaksóknara, að maðurinn hafi játað verknaðinn og því var ekki talin þörf á aðalmeðferð.
Í dómsniðurstöðu kemur fram að ákærði á engan sakaferil að baki. „Málið er um margt óvenjulegt þar sem ákærði veitti brotaþola eitt lófahögg með þeim hörmulegu afleiðingum að brotaþoli lét lífið. Gögn málsins bera það með sér að brotið hefur verið ákærða þungbært og hefur hann glímt við einkenni alvarlegs kvíða og þunglyndis, auk áfallastreitu, í kjölfarið. Við ákvörðun refsingar verður ekki litið fram hjá hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti ákærða. Ekki verður talið að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar, sem samkvæmt upptöku úr eftirlitsmyndavél virðist hafa verið fyrirvaralaus. Á hinn bóginn verður litið til þess að ákærði hafði ekki ásetning til þess að vinna brotaþola slíkt tjón sem raun varð og afleiðingarnar urðu mun alvarlegri en höggið gaf tilefni til og verða metnar honum
til gáleysis.“
Ákærði var einnig dæmdur til að greiða 2.895.655 krónur í skaða- og miskabætur með vöxtum til móður hins látna. Gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, sem telst hæfilega ákveðin 500.000 krónur. Ákærði greiði 500.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 1.000.000 króna, og 1.333.624 krónur í annan sakarkostnað.
Dómur var kveðinn upp í málinu 30. desember en dómurinn var birtur á vef dómstólana í dag.