Héraðdómur Reykjaness hefur dæmt konu, Katrínu Vilhelmína Tómasdóttur, til að endurgreiða konu og karlmanni, Svandísi Alexíu Sveinsdóttur og Hafsteini Einari Ágútssyni, sem keyptu íbúð hennar hluta af söluverðinu vegna galla. Héraðsdómur Reykjaness var fjölskipaður í málinu en auk dómara dæmdu byggingartæknifræðingur og löggiltur fasteignasali í málinu. Dómarinn vildi sýkna Katrínu af kröfum kaupendanna en meðdómendurnir voru því ósammála og því varð þetta niðurstaðan.
Byggingarár íbúðarinnar er 1989 en umrædd sala var frágengin árið 2021. Sögðu kaupendurnir í sinni stefnu að um einum og hálfum mánuði eftir að þau fluttu inn hafi þau fjarlægt rist á þili við baðker. Þá hafi komið í ljós umfangsmiklar rakaskemmdir og mygla í veggjum og á gólfi undir baði. Fasteignasalinn hafi verið látinn vita en í dómnum segir að hann hafi ekki látið seljandann vita.
Kaupendurnir sögðust síðan hafa í upphafi árs 2023 fundið myglu í vaskaskáp í innréttingu í eldhúsi. Verkfræðistofan Verkís hafi fundið raka og myglu í íbúðinni og mælt með því að allt byggingarefni yrði fjarlægt af útveggjum og allt gólfefni af rýmum með útveggjum. Var í úttektinni talið að skýringuna mætti rekja til ófullnægjandi frágangs rakavarnarlags.
Stefndu kaupendurnir í kjölfarið seljandanum á grundvelli þess að um leyndan galla hefði verið að ræða.
Byggingartæknifræðingur var dómkvaddur sem matsmaður og var það niðurstaða hans að þegar íbúðin var afhent kaupendunum hafi verið ágallar á útveggjum, baðherbergi, gólefnum í eldhúsi og eldhúsinnréttingu. Taldi hann mega rekja vandamálin til raka en tókst ekki að finna uppruna hans. Mat hann gallana á um 3 milljónir króna.
Var að ósk kaupendanna kvaddur til löggiltur fasteignasali til að leggja mat á rýrnun verðmætis íbúðarinnar. Kaupverðið var 48.900.000 króna en fasteignasalinn mat það svo að hefðu legið fyrir upplýsingar um gallana sem nefndir séu í matsgerð byggingartæknifræðingsins hefði kaupverðið átt að vera 40.900.000 krónur. Þar af leiðandi ætti afslátturinn til kaupendanna að vera 8.000.000 króna.
Í málflutningi sínum vísuðu kaupendurnir meðal annars til þess að íbúðin hafi verið haldin göllum sem seljandinn hafi ekki upplýst þau um. Seljandinn hafi þar að auki neitað því að rakavandamál væru til staðar á baðherbergi og ekkert hafi verið minnst á galla í söluyfirliti.
Seljandinn sagði að kaupendurnir hefðu upplýst hana of seint um hina meintu galla, fyrst tveimur árum eftir að þau uppgötvuðu þá. Þar með hafi kaupendurnir glatað rétti sínum til að bera fyrir sig leynda galla. Tjón þeirra væri að auki ósannað. Þau hafi selt íbúðina á hærra verði en þau hafi greitt og skýrsla byggingartæknifræðingsins hafi verið ótæk sem sönnunargagn þar sem hún hafi verið unninn eftir að hinir meintu gallar hafi verið lagfærðir. Skýrsla Verkís hafi einnig verið ómarktæk þar sem hennar hafi verið aflað einhliða af hálfu kaupendanna. Seljandinn vísaði því einnig á bug að hún hafi verið meðvituð um einhverja galla og sömuleiðis að íbúðin hafi verið haldin göllum í skilningi laga.
Eins og áður segir voru dómendur í málinu ekki sammála um niðurstöðuna. Allir sögðu þeir það ósannað að seljandinn hafi vitað af raka undir baði eða að hún hafi gefið kaupendunum rangar upplýsingar.
Fasteignasalinn og byggingartæknifræðingurinn töldu að ekkert hefði komið fram um að ekki mæti líta til matsgerðar þess byggingartæknifræðings sem kvaddur var til sem matsmaður og komst að þeirri niðurstöðu að íbúðin hefði verið haldin göllum. Einnig töldu þeir að líta bæri til matsgerðar fasteignasalans sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að gallarnir myndu spilla fyrir framtíðarsölu á íbúðinni. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að seljandanum bæri að greiða kaupendunum 6.500.000 króna en þeir drógu frá galla á baðherbergi sem metin var á 1.500.000 króna, þar sem seljandanum hafi ekki verið tilkynnt um hann fyrr en tveimur árum eftir að hann uppgötvaðist.
Dómarinn taldi hins vegar að ekki væri hægt að líta til matsgerðar fasteignasalans þar sem hún hafi snúist um hvert kaupverðið ætti að vera hefðu upplýsingar um gallana legið fyrir. Þar sem ósannað hafi verið að seljandinn hafi vitað af raka ætti ekki að miða við matsgerðina. Í henni sé þar að auki ekkert útskýrt hvernig fasteignasalinn hafi komist að niðurstöðu um hver afsláttur til seljendanna ætti að vera. Matsgerðin uppfylli ekki ákvæði fasteignakaupalaga um sönnun á beinu fjártjóni. Þar með eigi aðeins að líta til matsgerðar byggingartæknifræðingsins og mat hans sé langt frá því að ná gallaþröskuldi laganna. Sú niðurstaða hefði leitt til sýknu seljandans.
En þar sem fasteignasalinn og byggingartæknifræðingurinn voru ekki sammála dómaranum ber seljandanum að endurgreiða kaupendunum 6.500.000 krónur auk dráttarvaxta. Þar að auki þarf seljandinn að greiða 3.000.000 króna í málskostnað.
Dóminn í heild er hægt að lesa hér.