Birt hefur verið ákæra gegn manni um fertugt sem varð móður sinni að bana á heimili hennar í Breiðholti í október 2024. Mál gegn manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Saga ofbeldis mannsins gegn konunni nær mörg ár aftur í tímann, sem og ofbeldi hans gegn föður sínum sem nú er látinn. Hefur hann áður verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn foreldrum sínum.
Í ákæru héraðssaksóknara í málinu kemur fram að maðurinn hafi stungið móður sína að minnsta kosti 22 sinnum í brjóstsvæði, handleggi og hendur, en hnífstungurnar gengu m.a. inn í
hægra lunga sem leiddi til dauða hennar.
Fjórir aðstandendur konunnar krefjast miskabóta af hinum ákærða, hvert um sig krefst sex milljóna króna.
Aðalmeðferð í málinu verður við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 19. mars næstkomandi.