Maður er grunaður um einstaklega hrottalegar misþyrmingar á konu. Kemur þetta fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar sem staðfestir úrskurð héraðsdóms.
Konunni voru meðal annars veittir áverkar með hnífi og hamri en áverkunum er lýst svo í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms:
„Tilkynning barst lögreglu kl. 14:50 þann 10. nóvember 2024 frá bráðamóttöku Landspítalans um konu sem var töluvert mikið slösuð sökum líkamsmeiðinga sem hún hafi orðið fyrir undafarandi daga. Fram kom hjá vakthafandi hjúkrunarfræðingi að hún hafi aldrei á sínum ferli séð slíka áverka.
Brotaþoli A kvað X hafa veitt sér áverkana. Brotaþoli var með gríðarlega mikla áverka víðsvegar um líkamann og að sögn lýtalæknis sem skoðaði brotaþola litu sár á líkama hennar útfyrir að hún hafi verið lamin með hamri. Þá var hún með að minnsta kosti eitt brotið rifbein.
Í kjölfarið var varnaraðili handtekinn á heimili hans að […] og vettvangur tryggður. Leit var gerð á heimili varnaraðila og vettvangur rannsakaður af tæknideild. Lagt var hald á ýmsan fatnað sem fannst í íbúðinni sem og lak af rúmi varnaðila. Einnig hamar og dúkahníf. Tekin voru sýni af blóði sem fannst á veggjum í svefnherberginu.
Fyrir liggur afrit úr bráðamóttökuskrá vegna áverka brotaþola. Þar kemur fram að brotaþoli hafi verið öll úti í marblettum og skurðum. Á andliti sé hún marin í kringum báðar augnumgjörðir, á ennisblaði og við vinstra eyra. Hún sé með þriggja sentímetra skurð á milli augabrúna. Djúpa hringlaga skurði á vinstri framhandlegg og vinstra læri. Báðir fótleggir séu með misstóra marbletti um alla leggi. Yfirborðsskurðir séu á báðir leggjum og grynnri rispur einnig. Hægri hendi sé mjög bólgin og fjólublátt mar sé yfir alla hendina. Þá var gerð réttarlæknisfræðileg skoðun á brotaþola þann 11. nóvember 2024.
Í bráðabirgðaskýrslu réttarlæknis kemur fram að á gott sem öllum líkama brotaþola hafi sést fjöldi marbletta, sára, skráma og rispa. Einnig áverkar eftir högg eða slög með hörðum áhöldum. Áverkarnir hafi verið að mestu leyti ferskir eða allt að nokkurra daga gamlir. Þá var talið mjög líklegt að annar aðili hafi veitt henni áverkana, mögulega með höggum eða hnúum eða einhvers konar áhaldi, spörkum eða íslagi líkamans gengt hörðum yfirborðum eða köntum.“
Konan sagði manninn hafa veitt sér þessa áverka og hefði ofbeldi hans gagnvart henni staðið yfir í nokkurn tíma.
Til rökstuðnings kröfu sinni um gæsluvarðhald yfir manninum bendir lögreglustjórinn í Reykjavík á að viðkomandi sé grunaður um stórfellda líkamsárás gagnvart brotaþola sem hafi staðið yfir um nokkurra daga tímabil.
Hefur maðurinn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 3. febrúar. Úrskurðina má lesa hér.