Greint er frá málinu á forsíðu Morgunblaðsins í dag og þar er haft eftir Erlendi Gíslasyni, lögmanni hjá LOGOS sem gætir hagsmuna Búseta í málinu, að framkvæmdin brjóti í bága við lög og reglur. Gerir hann til að mynda alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og afgreiðslu leyfa sem gefin voru út vegna hússins.
Erlendur nefnir til dæmis að afstöðumyndir sem eiga að sýna afstöðu til nærliggjandi bygginga séu óljósar og villandi. Þær sýni til dæmis ekki húsið við Árskóga 7 en aðeins 14 metrar skilja húsin að.
Þá nefnir hann að í byggingarleyfi sé kveðið á um að öll framkvæmdin skuli unnin eftir samþykkum aðal- og séruppdráttum. „Þetta virðist ekki uppfyllt því byggingarleyfið var gefið út ári áður en séruppdrættirnir voru lagðir fram, um það leyti sem húsið var risið,“ segir Erlendur við Morgunblaðið.