„Kennarar þurfa valdið til baka og fá að taka stjórn aftur. Það er ekki staðan í dag. Við þurfum að setja foreldrum mörk og foreldrar verða að treysta okkur,“ segir Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir, skólastjóri Hörðuvallaskóla í Kópavogi, í aðsendri grein á Vísir.is. Sigrún segir að ljótt orðbragð og ofbeldi nemenda, m.a. gegn starfsfólki skólanna hafi færst í aukana. Sumir foreldrar bregðist illa við upplýsingum um slæmt framferði barna þeirra í skólanum og aðrir foreldrar skipti sér of mikið af því sem gerist í skólanum og séu með rangar áherslur.
Sigrún skrifar:
„Kennarar eyða löngum stundum í að leysa úr agamálum á kostnað kennslunnar. Miðað við þróunina síðustu tuttugu ár er íslenskt samfélag ekki á réttri braut. Við erum komin út af sporinu og verðum að leita allra leiða til að komast aftur á rétt spor. Agaleysi samfélagsins er aukið álag á kennarana okkar og stjórnendur skóla um land allt. Þetta hefur áhrif á starfsumhverfið og á veikindafjarvistir starfsfólks. Þurfum við að ráða atferlisráðgjafa í alla skóla? Þarf samfélagið ekki að fara í smá naflaskoðun? Þurfum við ekki að skoða aðeins hvort við séum á réttri braut?“
Sigrún spyr hvað það sé í íslensku samfélagi sem valdi útbreiddu agaleysi. Starfsfólk í íslenskum skólum upplifi það daglega. Hún spyr hvers vegna agaleysið sé meira á Íslandi en í öðrum löndum. Ein ástæðan sé sú að íslenskir foreldrar vinni of mikið og hafi lítinn tíma fyrir börn sín.
Segir hún að hraði samfélagsins valdi markaleysi en nauðsynlegt sé að setja börnum og foreldrum þeirra mörk. Hún hefur ýmislegt að segja um framferði foreldra skólabarna:
„Margir stjórnendur hafa lent í því að fá fréttir af atviki frá foreldrum áður en þeir fá tækifæri til að leysa úr því með börnunum. Það er vegna þess að börnin hringja strax heim úr sínum síma á meðan starfsfólk er að finna út úr því hvað kom fyrir. Þurfa foreldrar ekki að fá frið í vinnunni? Þeir verða að treysta skólanum að geta unnið úr málunum. Símar barnanna verða að vera heima á skólatíma, því þeir skapa vanda í skólanum. Foreldrasamskipti og samstarf er mikilvægt, en það er þessi fína lína hvenær foreldrar ganga of langt á fagfólk skólanna. Það má ekki gleyma því að margir foreldrar eru að standa sig gríðarlega vel og eru í frábæru samstarfi við starfsfólk skólanna en hinn hlutinn er því miður að stækka.“
Sigrún spyr hvert íslenskt samfélag stefni. „Börnin okkar þurfa ró, meiri tíma með foreldrum sínum, meiri samveru og nánd. Þá finna þau að stressið er minna, þau finna að þau skipta máli. Það þarf ekki að vera stanslaus dagskrá alla daga. Ef foreldrar gefa börnunum sínum meiri tíma og setja þeim mörk, myndi þá agaleysi, ljótt orðbragð, ofbeldi og virðingarleysi minnka? Verðum við íslenska samfélagið ekki að fara að taka höndum saman og ná betri ró í samfélagið? Skólinn gerir þetta ekki einn.“
Sigrún segir ennfremur að kennaraskortur blasi við en undanfarin ár hafi orðið sífellt erfiðara að fá menntaða kennara til starfa í skólum landsins. Mikið sé undir varðandi yfirstandandi kjarasamningaviðræður:
„Það blasir við kennaraskortur. Undanfarin ár er orðið erfiðara að fá menntaða kennara til starfa í skólum landsins. Að ráða inn leikskólakennara á leikskóla er eins og finna nál í heystakk. Staðan er farin að verða eins í grunnskólunum. Stjórnendur í skólum landsins standa frammi fyrir því að ráða ófaglært starfsfólk til starfa til að sinna kennslu og í dag er nánast ómögulegt að fá menntaða kennara til starfa. Það er áhyggjuefni sem hefur mikil áhrif á námsárangur nemenda. Það þarf að bæta kjör kennara og starfsaðstæður. Ég tel að núverandi kjarasamningaviðræður kennara og stjórnenda séu þær dýrmætustu fyrr og síðar. Við erum í miðjum hvirfilbyl og það er spurning hvoru megin við komum út. Náum við góðum samningi þannig að hægt sé að ýta ungu og efnilegu fólki í kennaranám eða verður þetta sama tuggan áfram þannig að fólk velur sér aðrar námsleiðir og æ færri menntaðir kennarar skila sér út í skóla landsins? Við erum á hálum ís. Það verður að ganga frá mannsæmandi kjarasamningi við alla kennara og skólastjórnendur landsins sem fyrst.“