Guðbrandur, sem er fyrrverandi formaður Ökukennarafélags Íslands, skrifar grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu í dag og vísar í breytingar sem gerðar voru á umferðarlögum árið 2020 um gildistíma ökuskírteina. Breytingin sem um ræðir var þannig að almenn ökuskírteini gilda ekki lengur þar til hlutaðeigandi er fullra 70 ára heldur einungis í 15 ár frá útgáfu þess.
Fyrir umsækjendur sem eru orðnir 60 ára gildir skírteinið í tíu ár, 65 ára fimm ár, 70 ára fjögur ár, 71 árs þrjú ár, 72 ára tvö ár og 80 ára eða eldri eitt ár.
Guðbrandur setur spurningarmerki við þetta og segir að fróðlegt væri að vita hvaða rök liggi að baki þessari nákvæmu aldursskiptingu.
„Eða eru rökin kannski engin? Ekki er auðvelt að finna upplýsingar á heimasíðu Samgöngustofu eða tryggingarfélaga um að framangreindir aldurshópar valdi fleiri óhöppum eða slysum en aðrir hópar eða er þetta kannski bara hugarburður vanhæfra starfsmanna Samgöngustofu? Aldursskipting sem þessi er að mínu mati algjörlega út í hött á okkar tímum en hefði mögulega getað átt við fyrir 50 árum eða svo.”
Guðbrandur segir að flestir þeir sem í dag tjá sig almennt um heilsufar og almenna hæfni fólks sé sammála um að sé hugsað 50 ár aftur til baka þá hafi 80 ára einstaklingur nú til dags svipaða hæfni og 60 ára einstaklingur hafði fyrir 50 árum.
„Þann ávinning má þakka almennt betra atlæti fólks og góðu heilbrigðiskerfi. Því eiga aldurstengd ákvæði af þessu tagi alls ekki við á okkar tímum og þau þarf því að nema á brott úr lögum og reglugerðum eða a.m.k. að gera á þeim umtalsverðar breytingar,“ segir hann.
Guðbrandur segir að honum sé fullkunnugt um að svona sé þetta ekki hjá nágrannaþjóðum okkar og þar sé gildistími ökuskírteina almennt 15 ár, óháð aldri.
„Því er það með öllu óskiljanlegt hvað íslenskum stjórnvöldum gengur til með því að beita sér svo sem að framan er lýst gagnvart þeim þegnum sínum sem komnir eru af léttasta skeiði og byggt hafa upp það velferðarríki sem við búum nú við,“ segir Guðbrandur sem skorar á nýkjörna alþingismenn og ríkisstjórn að beita sér fyrir því að breyta þessu.
„Nú er það svo að hverri endurnýjun ökuréttinda fylgir umstang, t.d. þarf að afla læknisvottorðs hjá heimilislækni á heilsugæslu þar sem oftast er margra vikna bið eftir viðtali. Það mætti stytta bið margra eftir viðtali hjá lækni með því að létta af þeim þeirri fáránlegu kvöð að þurfa stöðugt að kanna heilsufar fólks sem að mestu leyti er fullfrískt. Læknar hafa margt þarfara að gera við dýrmætan tíma sinn en að þjóna duttlungum stjórnvalda með óhóflegum vottorðaútgáfum. Þessu öllu fylgja svo snúningar og óþarfa fjárútlát.“