fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Leigusali í Grindavík vildi ekki gefa eftir leiguna þar sem vel væri hægt að búa í bænum

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 21. janúar 2025 13:30

Frá Grindavík 13. nóvember 2023. Mynd/DV-KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í máli konu sem leigði íbúð í Grindavík. Krafðist konan þess að leigusala hennar, ónefndu fyrirtæki, yrði gert að endurgreiða henni tryggingu og leigu sem hún greiddi fyrir seinni hluta nóvembermánaðar 2023, þegar bærinn var rýmdur. Krafðist hún þess einnig að leigusalanum yrði að gert að fella niður kröfur um leigu fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2024. Fyrirtækið vildi hins vegar ekkert gefa eftir og vísaði til þess að eftir að slakað var á rýmingu í bænum í febrúar 2024 að vel mögulegt hafi verið að búa í bænum, gagnstætt því sem konan hafi haldið fram og konunni hafi verið óheimilt að rifta leigusamningnum. Svo fór að nefndin úrskurðaði báðum aðilum í bæði hag og óhag.

Upphaflega gerðu konan og fyrirtækið með sér leigusamning sem átti að gilda frá 1. september 2023 til 30. ágúst 2025.

Í kæru konunnar kemur fram að eftir að rýming Grindavíkur var fyrirskipuð 10. nóvember 2023 hafi hún yfirgefið íbúðina. Í ljósi þeirrar hættu sem steðjað hafi að bænum hafi hún ekki getað snúið til baka og hafi ekki í hyggju að búa í bænum í framtíðinni. Sagði konan í kæru sinni að hún hefði farið fram á riftun á leigusamningnum í lok nóvember 2023 en eftir takmörkuð svör frá fyrirtækinu hafi hún tilkynnt því formlega um riftun með ábyrgðarbréfi í febrúar 2024 en engin svör hafi borist við því.

Hafi mátt rifta

Byggði konan heimild sína til einhliða riftunar á ákvæðum húsaleigulaga, sem bætt var við lögin eftir rýmingu Grindavíkur, um að leigjendur gætu rift leigusamingnum ef upp kæmu utanaðkomandi aðstæður sem gerðu húsnæðið ónothæft og leigjandi bæri ekki ábyrgð á. Sömuleiðis hafi verið bætt inn ákvæði í lögin um að leigjendur ættu rétt á afslætti vegna leigugreiðslna fyrir húsnæði sem þeir gætu ekki notað vegna rýmingar sem fyrirskipuð hafi verið af yfirvöldum. Því krafðist konan endurgreiðslu á leigu fyrir 10.-30. nóvember 2023 og að viðurkennt væri að fyrirtækinu hafi ekki verið heimilt að krefja hana um húsaleigu fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2024.

Íbúðarhæf

Fyrirtækið andmælti því að vegna aðstæðna hafi konan verið í fullum rétti að rifta leigusamningnum einhliða og þar að auki hafi hún ekki farið rétt að við riftunina sem hefði því ekkert lagagildi. Konan hafi sömuleiðis ekki rýmt íbúðina fyrr en í lok mars 2024. Henni hafi verið vel kunnugt um jarðhræringar í nágrenni bæjarins þegar leigusamningurinn var gerður. Benti fyrirtækið einnig á að strax í síðari hluta nóvember 2023 hafi aðgengi íbúa í Grindavík að bænum verið aukið. Í febrúar 2024 hafi síðan fyrirmæli um brottflutning íbúa bæjarins verið felld niður.

Þar af leiðandi hafi íbúðin ekki verið ónothæf nema frá nóvember 2023 og fram í febrúar 2024.

Hughrif konunnar skipti ekki máli í þessu samhengi heldur hin opinberu fyrirmæli.

Benti fyrirtækið á að í húsaleigulögum segi að eftir að fyrirmælum um rýmingu hafi verið aflétt beri leigjendum að rýma húsnæði í seinasta lagi sjö dögum síðar. Þar sem konan hafi ekki gert það fyrr en í mars hafi það átt að minnsta kosti rétt á leigu frá því að rýmingu var aflétt í febrúar og þar til konan hafi rýmt íbúðina. Hins vegar megi færa rök fyrir því að rýming húsnæðisins hafi verið möguleg frá og með 20. nóvember 2023 þegar íbúum var hleypt inn í bæinn til að vitja eigna sinna.

Sprungurnar

Konan andmælti því að henni hafi mátt vera ljóst þegar hún gerði leigusamninginn hvað gæti gerst í Grindavík. Þrátt fyrir heimildir til að búa í bænum frá og með febrúar 2024 séu innviðir í lamasessi, vandræði hafi verið með rafmagn og vatn og sprungur í jörðu skapi hættu. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi enda tekið fram þegar hömlum á búsetu í bænum var aflétt í febrúar að hún væri ekki alfarið hættulaus. Íbúðin hafi því verið óíbúðarhæf.

Í niðurstöðu kærunefndar húsamála eru fyrirmæli yfirvalda, frá því að rýming Grindavíkur var fyrirskipuð 10. nóvember 2023 og þar til hömlum á búsetu í bænum var aflétt 19. febrúar 2024, rakin með ítarlegum hætti. Nefndin segir því ljóst að upp hafi komið atvik sem hafi gert konunni ómögulegt að hafa afnot af íbúðinni. Þótt það sé rétt hjá fyrirtækinu að hún hafi ekki fylgt að öllu leyti hinu formlega ferli við riftun leigusamningsins þá sýni samskipti hennar við fyrirtækið að hún hafi viljað rifta leigusamningnum og það hafi henni, í ljósi aðstæðna, verið heimilt að gera samkvæmt húsaleigulögum.

Teljist samningnum því hafa verið rift 29. nóvember 2023 þegar konan skilaði lyklunum að íbúðinni.

Of sein að rýma

Nefndin fellst að hluta til á þær röksemdir konunnar að erfitt hafi verið um vik fyrir hana að rýma íbúðina fyrr en hún gerði, í lok mars 2024. Það hafi þó verið mögulegt frá og með 19. febrúar 2024 þegar búseta var aftur leyfð í bænum. Samkvæmt húsaleigulögum hafi henni borið að rýma íbúðina í seinasta lagi sjö dögum eftir riftun en þar sem hún hafi ekki gert það fyrr en um fimm vikum eftir að það var mögulegt beri henni að greiða fyrirtækinu húsaleigu fyrir þetta tímabil, alls um 172.000 krónur.

Nefndin fellst hins vegar á þá kröfu konunnar að fyrirtækið endurgreiði henni húsaleigu fyrir tímabilið 10. – 29. nóvember þar sem ekki hafi verið mögulegt fyrir hana að nýta íbúðina, vegna rýmingar Grindavíkur. Sú upphæð nemi um 112.000 krónum og því skuldi konan fyrirtækinu um 60.000 krónur.

Nefndin segir fyrirtækinu heimilt að draga þessa upphæð frá tryggingafénu sem konan lagði fram við upphaf leigutímans, alls 465.000 krónur, en það sem eftir standi beri því að endurgreiða konunni ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“
Fréttir
Í gær

Ferðamenn í vandræðum í vitlausu veðri – Sjáðu myndirnar

Ferðamenn í vandræðum í vitlausu veðri – Sjáðu myndirnar
Fréttir
Í gær

Segja að norðurkóreskir hermenn falli eins og flugur

Segja að norðurkóreskir hermenn falli eins og flugur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum