Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, segir að ósanngjörn fjölmiðlaumfjöllun um Trump, einkum hjá RÚV, geti haft óæskileg áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Guðmundur skrifar:
„Íslensk stjórnvöld verða einnig að horfast í augu við það hvernig málflutningur fjölmiðla getur haft áhrif á samskipti við mikilvæga bandamenn. Sérstaklega hefur verið bent á ósanngjarnan málflutning Ríkisútvarpsins (RÚV) í áraraðir gagnvart nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Slíkur skaðlegur málflutningur getur grafið undan samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og dregið úr trúverðugleika Íslands sem trausts bandamanns.
Þessu verður að linna. Það er grundvallaratriði að fjölmiðlar, sérstaklega opinberir miðlar eins og RÚV, taki mið af hlutleysi og sanngirni þegar fjallað er um málefni sem varða samskipti við alþjóðlega samstarfsaðila. Slíkt er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir heilbrigða umræðu á Íslandi heldur einnig fyrir viðhald góðra samskipta við mikilvæga bandamenn eins og Bandaríkin.“
Í greininni segir Guðmundur að Bandaríkin séu lykilbandamaður Íslendinga og þróun heimsmála auki þörfina á að styrkja sambandið við Bandaríkjamenn:
„Í ljósi breytinga á alþjóðlegum öryggismálum og hugsanlegra áforma Bandaríkjanna um að minnka afskipti sín af NATO verður Ísland að meta stöðu sína í ljósi hagsmuna sinna. Íslensk stjórnvöld verða að leggja áherslu á að ef til uppskiptingar í NATO kemur, þar sem Evrópuríki taka meiri ábyrgð á varnarmálum sínum, vilji Ísland ekki tengja sig sérstaklega við slíkar kostnaðarsamar áætlanir heldur halda áfram að viðhalda nánum varnarsamskiptum við Bandaríkin. Þetta er í takt við þá stefnu að Bandaríkin séu áfram helsti varnarsamstarfsaðili Íslands, enda skipa þau lykilhlutverk í öryggi á Norður-Atlantshafi.“
Guðmundur segir að Ísland geti leikið stjórt hlutverk í væntanlegri uppbyggingu Bandaríkjamanna á Grænlandi:
„Með því að nýta Ísland sem miðstöð fyrir aðfangakeðjur, flutninga og samstarf getur landið orðið ómissandi hluti af stefnumótandi áætlunum Bandaríkjanna á þessu svæði. Ísland getur með því boðið upp á öflugan vettvang fyrir umsvif Bandaríkjanna á norðurslóðum, sem eykur enn frekar mikilvægi þess sem samstarfsaðila.“
Guðmundur segir mikilvægt fyrir Íslendinga að efla samstarf við Bandaríkjamenn og stuðla þannig að öruggari og betri framtíð fyrir bæði ríkin.