Undanfarinn sólarhring hafa margir veitt því eftirtekt að samfélagsmiðillinn Instagram er farinn að beita ritskoðun hvað varðar pólitískar færslur, en þá einkum færslur sem varða demókrataflokkinn bandaríska sem og hugmyndafræði félagshyggju eða sósíalisma. Eins hafa netverjar víða um heim átt erfitt með að finna efni sem er neikvætt í garð Donald Trump Bandaríkjaforseta, efni sem gefur til kynna að hann hafi svindlað í kosningunum eða að hann sé glæpamaður og/eða landráðsmaður.
Blaðamaður hefur sannreynt fyrir sitt, héðan frá Íslandi, að Instagram leyfir ekki leit að myllumerkjunum #democrat, #democrats, #rigged, #election, #treason og #fucktrump og það þó að blaðamaður hefði stillt Instagram sitt til að heimila aukið magn af pólitísku og/eða viðkvæmu efni.
Fyrrum þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, benti einnig á ritskoðunina í færslu á Facebook en þar sýndi hann hvernig Intstagram bannaði leit að efni sem tengist demókrötum en leyfir efni sem tengist repúblikönum.
Athygli hefur eins verið vakin á ritskoðuninni á miðlinum Reddit en þar staðfesta notendur út um allan heim að þeir geti ekki leitað að myllumerkjum demókrata á Instagram. Notendur í Bretlandi sögðust þó fá niðurstöður en það væri þó allt hægri áróður þar sem sem talað er niður til demókrata. Einn notandi í Bandaríkjunum lenti í því að geta ekki leitað að myllumerkjum sem tengjast fráfarandi Bandaríkjaforseta, Joe Biden, eða merki sem gætu vísað á færslur sem efast um niðurstöður kosninganna þar í landi eða vísað til þess að Trump sé glæpamaður. Enn einn lenti á vegg þegar hann leitaði að myllumerkinu #democracy, eða lýðræði, en rétt er að geta þess að blaðamaður Pressunnar lenti ekki í því sama en blaðamaður gat þó ekki leitað að myllumerkinu #trumpflation sem er orð sem er notað um gagnrýni á efnahagsstefnu Trump sem gæti ýtt undir verðbólgu.
„Þetta eru endalok tjáningarfrelsisins,“ skrifar einn frá Bretlandi sem hvetur til þess að fólk láti ekki bjóða sér svona og færi sig yfir á aðra samfélagsmiðla sem ekki eru í eigu Meta eða Elon Musk.
„Bíddu hægur, var það ekki íhaldið sem var að kvarta undan því að vera ritskoðað?,“ spyr einn gáttaður.
Einn Bandaríkjamaður benti á að efni sem varðaði þungunarrof, stjórnarskránna og hinsegin væri nú ritskoðað en ekki efni sem hvetur fólk til að kjósa til hægri. Það virðist leyfilegt að segja Biden að fokka sér en ekki Trump. Efni sem varðar þingmanninn Bernie Sanders sætir nú meira að segja ritskoðun.
Eins hefur verið bent á að eftir að TikTok opnaði aftur fyrir aðgengi í Bandaríkjunum, eftir stutta fjarvist um helgina, þá var um allt annan miðil að ræða. Notendur eiga nú erfitt með að finna myndbönd sem eru gagnrýnin á Bandaríkjaforseta, heilbrigðiskerfið og annað. Eins eiga notendur erfitt með að birta efni og athugasemdir af þessu tagi. Þetta var ekki þannig áður en TikTok lokaði. Nú hafa notendur í Bandaríkjunum eins verið hvattir til að tengja TikTok við Facebook-aðgang sinn, eitthvað sem miðillinn hafði aldrei stungið upp á áður.
Notendur Facebook hafa líka lent í því að þeir eru sjálfkrafa orðnir fylgjendur Donald Trump Bandaríkjaforseta og varaforsetans JD Vance, án þess að hafa nokkuð um það að segja.
Einn TikTok-notandi lýsti stöðunni svona: „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“ en miðillinn National World fjallaði um breytinguna sem hefur vakið ugg meðal Bandaríkjamanna. Þessi breyting virðist ekki ná út fyrir landsteinana því bandarískir notendur sem þykjast vera í öðru landi með því að nota VPN-þjónustu hafa ekki upplifað þessa breytingu. Fólk veltir nú fyrir sér hvort þetta þýði að þegar TikTok lokaði skamma stund hafi fyrirtækið samið við eiganda Meta, Mark Zuckerberg, og selt miðilinn, eða hvort fyrirtækið hafi samið við ríkisstjórn Trump um að beita ritskoðun til að fá áfram að starfa óáreitt í Bandaríkjunum.
Ríkisstjórn Trump hefur verið uppnefnd ríkisstjórn tæknirisana enda starfar forsetinn náið með ríkasta manni heims, Elon Musk, sem jafnframt er eigandi samfélagsmiðilsins X. Mörgum að óvörum hefur Mark Zuckerberg, eigandi Meta sem rekur meðal annars Facebook og Instagram, hefur eins komið sér í mjúkinn hjá forsetanum og það sama má segja um eiganda Amazon, Jeff Bezos. Sagan segir að Zuckerberg hafi undanfarin ár barist hart fyrir TikTok-banni í Bandaríkjunum enda sá miðill í beinni samkeppni við miðla Meta.
Uppfært 15:20: Svo virðist sem að Instagram hafi kippt þessu í liðinn, í það minnsta hvað þau myllumerki sem hér hafa verið rekin að ofan, nema #rigged. Við það má bæta að enn eru tiltekin merki ritskoðuð, svo sem #TrumpIsAFelon og #TrumpCheated. Samkvæmt talsmönnum samfélagsmiðlarisans var um einhvers konar kerfisvillu að ræða. BBC greinir frá og ræddi við Matt Navarra, sérfræðing í samfélagsmiðlum, sem segir að jafnvel þó um kerfisvillu sé að ræða þá sé þetta neyðarlegt fyrir miðilinn. Bandarískir notendur TikTok eru þó enn að greina frá því að efnisorð sem vísa til demókrata eða eru gagnrýnin í garð Trump séu enn ritskoðuð þar á bæ. Þar hafa notendur rekið sig á að umræðuefni á borð við Palestínu, eldana í Los Angeles, helförina og annað eru nú ritskoðuð. Newsweek hefur það eftir talsmönnum TikTok í Bandaríkjunum að fyrirtækið sé hægt og rólega að kveikja aftur á þjónustu sinni við Bandaríkjamenn eftir stutta lokun um helgina sem mögulega gæti haft áhrif á virkni forritsins.
TikTok is now region locking Americans from looking up things like „fascism“ and „Donald Trump rigged election“
on the left are results from a device in America, and on the right are results from one in the UK. pic.twitter.com/k8pTlkftZp
— Karl Max 🪶📃 (@KarlMaxxed) January 20, 2025
Censorship on TikTok is at an all time high with accounts being deleted, posts going back years being flagged, people losing access to the creator fund for saying anything Anti Trump, MAGA, Elon, etc
But free speech and all that right? pic.twitter.com/2tPjCW9FRN
— Dustin Genereux (@DustinGenereux) January 20, 2025