Landsfundur flokksins fer fram í lok febrúar þar sem nýr formaður verður kjörinn í stað Bjarna Benediktssonar sem ætlar að láta gott heita eftir 16 ára formennsku.
Morgunblaðið í dag hefur eftir Áslaugu að hún hugleiði framboð, margir hafi skorað á hana og hún taki þær áskoranir alvarlega. Hún ætlar þó ekki að flýta sér.
„Mér liggur ekki á og finnst dýrmætt að eiga fleiri hreinskilin og innihaldsrík samtöl við flokksmenn áður en ég ákveð mig. Ég vil gefa mér nokkra daga í það,“ segir hún við Morgunblaðið en eins og komið hefur fram hafa ýmsir verið orðaðir við framboð til formennsku.
Þar á meðal eru þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Í frétt Morgunblaðsins er bent á að ekki hafi borið mikið á opinberum áskorunum, en þess er þó getið að Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Heiðar Guðjónsson hafi verið á einu máli um erindi Áslaugar í formannsembættið í þætti Gísla Freys Valdórssonar, Þjóðmálum, á dögunum. Segir í frétt Morgunblaðsins að bæði Heiðrún og Heiðar megi teljast „atkvæðafólk” í flokknum.