NBC News segir að forsetatilskipanirnar, sem þekkjast einnig undir nafninu forsetaúrskurðir, gætu mögulega farið yfir 100 á meðan The Hill bendir á að sjálfur hafi Trump sagt að þær verði „tugir, næstum hundrað, til að gæta nákvæmni.“
Trump hélt erindi á fjöldasamkomu í Washington DC í gærkvöldi þar sem hann sagði meðal annars að Bandaríkjamenn þyrftu að endurheimta landamæri sín. Talið er líklegt að tilskipanirnar muni snerta hin ýmsu mál.
Landamæra- og innflytjendastefna: Sem fyrr segir er búist við því að Trump lýsi yfir einhvers konar neyðarástandi á landamærunum á milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann muni einnig taka upp á að fíkniefnasamtök í Mexíkó, sem velta milljörðum dala, verði skilgreind sem hryðjuverkasamtök. Þá muni hann endurvekja hina svokölluðu „Remain in Mexico”-stefnu sem kveður á um að þeir sem sækja um hæli í Bandaríkjunum þurfi að dvelja í Mexíkó þar til mál þeirra fær efnislega meðferð í Bandaríkjunum.
Orkumál: Reiknað er með að Trump muni afturkalla reglugerðir um olíuborun og grípa til aðgerða til að afnema takmarkanir á orkuöflun. Þá er þess vænst að hann muni snúa við ýmsum aðgerðum frá Biden-tímanum sem snúa að loftslagsmálum eins og að fella niður reglur sem styðja rafbíla.
Fjölbreytni, jafnrétti og inngilding (DEI): Búist er við því að hann afturkalli ýmis atriði sem lúta að svokölluðu DEI-átaki bandarískra stjórnvalda á Biden-tímanum. Er meðal annars vísað til átaks á sviði jafnréttismála sem snúast um að tryggja að allir einstaklingar hafi sömu tækifæri, óhæð kyni, kynþætti, menningu og kynhneigð svo eitthvað sé nefnt.
Trump hefur verið gagnrýninn á DEI og bent á að átakið geti orðið til þess að einstaklingar veljist frekar í störf á grundvelli til dæmis kyns eða kynþáttar frekar en á grundvelli hæfileika eða frammistöðu. Óvíst er þó á þessari stundu hvaða breytingar hann mun nákvæmlega gera.