Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur samþykkti á afgreiðslufundi sínum fyrr í þessum mánuði að veita Pennanum ehf., sem rekur bóka- og ritfangaverslanir um allt land undir merkjum Pennans-Eymundsson, starfsleyfi til að reka þrjár matvöruverslanir í miðborg Reykjavíkur. Ná starfsleyfin yfir rekstur matvöruverslana með forpökkuð matvæli.
Öll starfsleyfin þrjú eru ótímabundin.
Verslanirnar verða í fyrsta lagi til húsa að Bankastræti 2 en í því húsi hefur fyrirtækið rekið verslunina Islandia þar sem seldar hafa verið vörur sem sniðnar hafa verið að erlendum ferðamönnum, til að mynda minjagripir og landakort. Munu þá matvælin væntanlega bætast við úrvalið.
Í öðru lagi mun fyrirtækið selja forpökkuð matvæli að Hafnarstræti 5 í versluninni The Viking sem eins og Islandia er sérsniðin að þörfum ferðamanna.
Í þriðja lagi mun fyrirtækið bæta forpökkuðum matvælum við úrvalið í verslun The Viking að Skólavörðustíg 25.