Líkamsárásarmál sem fer fyrir dóm á næstunni á sér um tveggja áratuga langa forsögu. Bræðurnir Björn Þorleifur Þorleifsson og Kar Ingi Þorleifsson hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Börk Birgisson vorið 2023. Mennirnir þrír eru allir á milli fertugs og fimmtugs.
Meint árás átti sér stað á veitingastaðnum Castello við Dalshraun 13 í Hafnaffirði föstudaginn 26. maí 2023. Bræðurnir eru sakaðir um að hafa veist að Berki saman en í árásinni missti Börkur meðvitund. Atvikinu er lýst svo í ákæru héraðssaksóknara:
„…Björn Þorleifur sló Börk með krepptum hnefa í andlitið og hélt höfði Barkar með því að vefja höndum utan um háls Barkar á meðan Karl Ingi sló Börk með krepptum hnefa sjö sinnum í höfuðið. Í framhaldinu hélt Björn Þorleifur Berki á fjórum fótum á gólfinu á meðan Karl Ingi, sparkaði í Börk, fyrst rétt við höfuð og síðan í búk en þá tók Björn Þorleifur Börk hálstaki þar sem hann lá á fjórum fótum með þeim hætti að höfuð Barkar fór undir handarkrika Björns, en Björn Þorleifur hélt honum í hálstaki og þrengdi að á meðan Karl Ingi veitti Berki átta hnéspörk í búkinn. Að því loknu veitti Karl Ingi Berki fimm olnbogaskot í höfuðið á meðan Börkur lá í gólfinu og stappaði í framhaldinu á andliti Barkar og sparkaði tvisvar sinnum í hægri hlið höfuðs hans þar sem Björn Þorleifur hélt Berki liggjandi á baki og sló hann með krepptum hnefa í andlitið. Eftir að Börkur hafði reist sig upp á hné tók Björn Þorleifur Börk aftur hálstaki, þrengdi að, og sleppti ekki fyrr en eftir að hann hafði misst meðvitund en þá sló Karl Ingi Börk með krepptum hnefa í andlitið þar sem hann lá á gólfinu. Voru afleiðingar líkamsárásarinnar þær að Börkur missti meðvitund og fékk mar á höfði, mar og yfirborðsáverka á nefi og mar á brjótskassa.“
Sem fyrr segir nær fjandskapur málsaðila áratugi aftur í tímann. Í janúar árið 2005 var Börkur dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps og fjölda líkamsárása. Einn ákæruliðurinn var vegna árásar með exi á Karl Inga Þorleifsson, inni á veitingastaðnum A. Hansen í Hafnarfirði árið 2004. Þá þegar höfðu þeir tveir, Börkur og Karl Ingi, eldað grátt silfur saman í langan tíma.
Í Fréttablaðinu þann 20. nóvember 2004 er farið ítarlega yfir málið og árásinni lýst svo:
„Það er þriðjudagskvöld, komið vel fram yfir miðnætti og kráin á efri hæð veitingahússins A. Hansen í Hafnarfirði er þéttsetin. Í svörtum sófa gegnt innganginum situr Karl Ingi Þorleifsson
ásamt félaga sínum og drekkur bjór. Á neðri hæðinni og í tröppunum veita gestir aðkomumanni athygli fyrir þær sakir að hann ber vopn. Maðurinn strunsar rakleiðis upp tröppurnar.
Karl Ingi sér mann, sem hann þekkir ekki af góðu, koma inn um dyrnar en veitir honum ekki frekari athygli. Skömmu síðar er hann sleginn með einhverju þungu í andlitið. Honum bregður svo við að hann nær ekki að bera hendurnar fyrir sig og er sleginn aftur. Og tvisvar enn.
Karl Ingi finnur að hann er sleginn með málmverkfæri, veit bara ekki hvernig verkfæri. Félaga hans og sessunaut er líka brugðið þegar hann sér „hárbeitta eggina koma niður“ og „það er blóð út um allt“. Hann reynir að koma Karli til hjálpar en fær í staðinn högg á eyrað.
Árásarmaðurinn hverfur á braut jafn skjótt og hann kom. Karl liggur í gólfinu alblóðugur í andliti. Kráargestur hringir í Neyðarlínuna og biður um sjúkrabíl. „Þetta var Börkur,“ segja þeir sem til sáu. Karl Ingi er fluttur á sjúkrahús, með skurð á enni og brotin bein í andliti.“
Börkur neitaði sök í málinu og bar við sjálfsvörn. Öxin sem hann beitti í árásinni fannst við húsleit heima hjá honum.
Málið gegn bræðrunum tveimur fyrir árás gegn Berki vorið 2023 verður þingfest við Héraðsdóm Reykjaness þann 31. janúar næstkomandi.