Fjölmiðlamaðurinn og sósíalistinn Gunnar Smári Egilsson horfði, eins og svo margir Íslendingar, á sjónvarpsþættina Vigdísi, sem byggja á ævi fyrrum forseta lýðveldisins, Vigdísar Finnbogadóttur. Lokaþátturinn var sýndur í gær. Gunnar skrifaði færslu á Facebook þar sem hann veltir því fyrir sér hvort hann hafi skilið þættina rétt og hvort þar komi fram að klíka Sjálfstæðismanna hafi verið vondi kallinn og hvort Ísland væri betra ef þessi klíka væri ekki til staðar.
Gunnar Smári skrifar:
„Ég horfði á Vigdísi. Er það rétt skilið að klíka innvígðra og innmúraðra Sjálfstæðisflokksmanna hafi verið vondi kallinn? Að Ísland hefði þróast á skaplegri hátt ef ekki væri fyrir þetta lið? Sem beitir lygum og undirróðri til að stýra því hverjir fá framgang á Íslandi og hverjir ekki? Mottó þessarar sögu er að þeim tekst það ekki alltaf, en líklega nógu oft til að halda áfram sínum illverkum. Þeir eru sannarlega ekki hættir.“
Einn maður er ekki sammála Gunnari Smára með þessa greiningu á boðskap Vigdísar og skýtur í raun frekar föstum skotum á fjölmiðlamanninn. Það er Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus, sem skrifar í athugasemd:
„Samkvæmt alþjóðlegum mælingum býr Ísland við einhverja mestu auðsæld í heimi, jöfnustu tekjudreifingu og minnstu fátækt. Þú varst hins vegar í þjónustu auðjöfra með þrjár milljónir á mánuði og aðgang að einkaþotu, og þú varðir þá dyggilega, þegar réttvísin knúði dyra hjá þeim vegna bókhaldsbrota.“
Gunnar Smári, sem einmitt í færslu sinni vék að undirróðri Sjálfstæðismanna, þakkaði Hannesi fyrir að hafa sannað mál sitt. Hannes Hólmsteinn var einmitt blaðamaður Eimreiðarinnar, rit ungra frjálshyggjumanna, á árunum 1972-1975. Gjarnan var talað um Eimreiðarhópinn en til viðbótar við Hannes voru þar Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson, Geir H. Haarde, Baldur Guðlaugsson, Brynjólfur Bjarnason, Kjartan Gunnarsson, Magnús Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Þessi hópur varð mjög áhrifamikill í Sjálfstæðisflokknum í lok 8. áratugar. Hannes er talinn hafa haft gífurleg áhrif á stefnu Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina, einkum á formannsárum Davíðs Oddssonar og síðar Geirs H. Haarde.
„Takk fyrir að staðfesta það sem ég var að skrifa,“ skrifaði Gunnar Smári um pilluna frá Hannesi. Gunnar Smári var um tíma forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Dagsbrúnar, sem þá var í eigu athafnamannsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Jón Ásgeir segir í æviminningum sínum að Gunnar Smári hafi þá dagana varla nennt til Danmerkur nema fá undir sig einkaþotu. Það hlakkaði nokkuð í Hannesi Hólmsteini við útgáfu æviminninganna og hefur hann síðan ítrekað skotið á Gunnar Smára út af meintu dálæti hans á einkaþotum.