Ögmundur fjallar um málið í Morgunblaðinu í dag þar sem hann bendir á tvær greinar sem birtust í blaðinu á Þorláksmessu. Annars vegar var um að ræða grein frá Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, og hins vegar grein frá Sighvati Bjarnasyni, flugmanni. Báðar greinarnar ættu að vekja fólk til umhugsunar um stöðu launþega þó svo þær fjalli hvor um sinn hlutinn.
„Ásdís bæjarstjóri mælir djarflega þykir mér þegar hún talar fyrir afnámi ýmissa „sérréttinda“ opinberra starfsmanna með vísan í „áhugaverða“ skýrslu frá Viðskiptaráði þar sem þessi óæskilegu umframréttindi séu tíunduð: „Vinnuvikan er styttri, veikindaréttur ríkari, starfsöryggi meira og orlof lengra – tekið saman metur Viðskiptaráð að þessi sérréttindi jafngildi um 19% launahækkun miðað við einkageirann“.“
Veltir Ögmundur fyrir sér hvort það geti í raun talist til hagsbóta fyrir „alla“ að afnema þessi meintu sérréttindi. Varla sé það til hagsbóta fyrir þá sem njóta þessara kjara. Ögmundur rekur að Ásdís hafi þó ekki látið sér nægja að tala fyrir afnámi sérréttinda heldur nýtti hún færið og kallaði eftir einstaklingsbundnum kjörum á opinberum vinnumarkaði. Hún nefndi sem dæmi í grein sinni árangurstengd laun sem opinberum starfsmönnum standi ekki til boða í dag. Væntanlega var Ásdís þar að horfa til sérstakra bónusa, sölulauna eða álíka. Ögmundur bendir á að með einstaklingsbundnum samningum sé verið að ýta stéttarfélögum til hliðar.
Ögmundur bendir á að það sé vafasamt að fullyrða að kerfisbreyting sem þessi muni stuðla að framþróun og vera öllum til hagsbóta. Þetta muni setja opinbera starfsmenn í þá stöðu að þeir þurfi að njóta velvildar stjórnenda. Þeir sem komi sér í mjúkinn fái fyrir það greitt. Þetta opni leiðina fyrir spillingu.
„Vinnustaðurinn fer að loga í eilífum ófriði og óánægju þar til reynt er að lægja öldur með launaleynd. Þá byrjar spillingin.“
Fyrrum ráðherrann rekur að þegar atvinnulífið og aðrir gera árásir á verkalýðshreyfingar sé það oftast gert í nafni frelsis. Það sé talað um félagafrelsi þegar rætt er um rétt fólks að standa utan stéttarfélaga. Reynslan sýni þó að þetta sé varhugaverð nálgun.
„Vandinn er sá að reynslan kennir að þessi tegund frelsis snýst oftast upp í andhverfu sína. Og svona getur það gerst: „Ég er tilbúinn að íhuga það að ráða þig í vinnu og þér er að sjálfsögðu frjálst að ganga í stéttarfélag eða standa utan þess. Það á nefnilega að virða félagafrelsi. En kjósirðu að ganga í stéttarfélag máttu hins vegar vita að ég mun ekki ráða þig til starfa. Ég vona að þú skiljir að frelsið tekur einnig til mín!“
Þarna spili inn grein flugmannsins, Sighvats Bjarnasonar. Sighvatur varaði við gervistéttarfélögum sem undanfarið hafa verið áberandi í umræðunni eftir að Samtök fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) gerðu samning við nýtt stéttarfélag, Virðingu, sem margt bendir til að hafi í raun verið stofnað af fólki á vegum SVEIT til að semja um verri kjör en Efling var tilbúin að samþykkja.
Sighvatur varaði við þessari þróun. Þó svo sumir gætu haldið að gervistéttarfélag gæti aldrei gengið upp hér á landi þar sem launþegar láti ekki bjóða sér það – þá sé raunin önnur. Félagafrelsið sé nefnilega tvíeggja sverð.
Sighvatur skrifaði:
„Með hæfilegri blöndu af blekkingu og óttastjórnun er hægur vandi að láta slíkt ganga. Það skjól sem stéttarfélagi er ætlað að veita breytist í andhverfu sína og félagsmenn verða í raun fagnar eigin félags. Viðkvæmir hópar og lágur meðalaldur félagsmanna gerir þá útsettari fyrir slíkri meðhöndlun. Með tíð og tíma þurrkast skilin út; gervistéttarfélag tekur á sig þægilega mynd starfsmannafélags og gefur sameiginlega jólagjöf með vinnuveitandanum.“
Ögmundur spyr hvort það sé ekki í raun til hagsbóta fyrir bæði launamenn og atvinnurekendur að hafa allt uppi á borði og eftir bókinni. Góðir stjórnendur hljóti að taka undir að það sé best að sleppa felumálum og hafa réttindi sem best, traust og starfsanda eftir því. Annað gildi um stjórnendur sem ekki eru starfi sínu vaxnir.
„Stjórnendur sem ekki eru starfi sínu vaxnir vilja á hinn bóginn réttlaust starfsfólk sem ráðskast megi með og reka að vild. Gagnstætt þessu reynir góður stjórnandi að finna lausnir. Ella er starfsmanninum gefið færi á að bæta ráð sitt. Svo er hitt til í dæminu að hann hafi verið hafður fyrir rangri sök. Þá má nýta réttinn sem Viðskiptaráðið sér ofsjónum yfir til að koma leiðréttingu við. Það hlýtur að teljast vera réttlátt og í framhaldinu mætti spyrja hvort réttlæti sé ekki bæði eftirsóknarvert og í ofanálag „til hagsbóta fyrir alla“.“