Héraðssaksóknari hefur birt manni ákæru vegna morðs á hjónum á áttræðisaldri í Neskaupstað í ágústmánuði síðastliðnum. Maðurinn heitir Alferð Erling Þórðarson og er 46 ára að aldri.
Í ákæru er Alfreð Erling sagður hafa barið hjónin margsinnis með hamri, einkum í höfuð, og höfuðkúpubrotið þau. Í ákæru segir orðrétt:
„Fyrir manndráp, með því að hafa miðvikudaginn 21. ágúst 2024 að [heimilisfang] á Neskaupsstað, svipt hjónin [nafn, kt] og [nafn, kt.], lífi, þar sem þau voru stödd á heimili sínu,
en ákærði veittist að þeim báðum innandyra með hamri og sló þau bæði oft með hamrinum, einkum í höfuð, allt með þeim afleiðingum að þau hlutu bæði umfangsmikla og alvarlega áverka
á höfði, þar á meðal ítrekuð brot á höfuðkúpum og áverka á heila og smærri áverka á öðrum hlutum líkama en þau létust bæði af völdum áverka á höfði.“
Fjórir aðilar gera einkaréttarkröfur í málinu um miskabætur upp á 12 milljónir króna fyrir hvert og eitt.
Alferð Erling er einnig ákærður fyrir vopnalagabrot, fyrir að hafa haft hníf með 15 cm löngu blaði í vörslu sinni við Kaupvang á Egilsstöðum.
Eftir morðið á hjónunum flýði hann burtu á bíl þeirra en hann var handtekinn á bílnum á Snorrabraut í Reykjavík daginn eftir.
Athygli vekur að í ákæru er þess krafist til vara að Alfreð Erling verði vistaður á viðeigandi stofnun. Samkvæmt heimildum DV er talinn vera möguleiki á því að hann verði úrskurðaður ósakhæfur vegna andlegra veikinda.