Shamsud, sem var 42 ára, ók bifreið sinni á hóp fólks í New Orleans á nýársnótt og hóf svo skothríð. Fimmtán manns létust og yfir 30 slösuðust áður en lögreglumenn skutu hann til bana.
Bandarískir fjölmiðlar hafa reynt að varpa ljósi á voðaverkið og sögu hryðjuverkamannsins sem var í raun ósköp venjulegur fjölskyldufaðir fyrir ekki svo mörgum árum; kvæntur, með ungt barn og fyrirtæki. Hann virðist þó hafa villst illilega af leið en fáni merktur ISIS-hryðjuverkasamtökunum fannst í bílnum hans.
Shamsud fæddist í Beamont í Texas og eru foreldrar hans enn búsettir þar. Hann gekk í skóla og náði sér í góða menntun auk þess að stofna fyrirtæki og sinna herþjónustu.
„Hér hef ég verið allt mitt líf fyrir utan ferðalög mín fyrir herinn þar sem ég gegndi starfi mannauðsfulltrúa í upplýsingatæknideild,“ sagði hann í myndbandi frá árinu 2020 þar sem hann kynnir sig sem fasteignasala.
Shamsud gekk fyrst í bandaríska sjóherinn árið 2004 en hætti áður en formleg þjálfun hófst. Árið 2007 gekk hann aftur í herinn og frá febrúar 2009 til janúar 2010 gegndi hann herþjónustu meðal annars í Afganistan. Samhliða þessu stundaði hann nám í tölvuvísindum við Central Texas College og fékk svo starf hjá hernum sem hann gegndi til ársins 2015.
Sjá einnig: FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Það sama ár hóf hann nám í tölvuvísindum frá Georgia State University og lauk bakkalárprófi þaðan árið 2017. Að því loknu reyndi hann að fóta sig í viðskiptum og stofnaði hann fyrirtækið Blue Meadow Properties sem einbeitti sér meðal annars að fasteignaviðskiptum. Hann fékk leyfi til að selja fasteignir árið 2019 en það rann úr gildi árið 2023.
Á þessum tíma vann Shamsud einnig í upplýsingatæknimálum fyrir nokkur stór fyrirtæki, til dæmis Ernst & Young og Deloitte þar sem hann var við störf árið 2022. Það ár virðist allt hafa farið í vaskinn hjá Shamsud því þá gekk hann í gegnum erfiðan skilnað við eiginkonu sína, Shaneen, og var orðinn skuldum vafinn.
Fasteignafyrirtæki hans tapaði miklum peningum og brá hann á það ráð að selja fyrrverandi eiginkonu sinni hlut sinn í húsi þeirra í Fresno í Texas. Skilnaðurinn gekk svo í gegn sumarið 2022 en í umfjöllun Daily Mail kemur fram að hann hafi ekki verið í góðu. Þannig hafi dómari mælt með því að þau hefðu ekki samband við hvort annað meðan á málinu stóð. Saman áttu þau ungan son.
Shamsud var fráskilinn þegar hann kynntist Shaneen en hann skilldi við Nakedra Ball árið 2012. Núverandi eiginmaður hennar, Dwayne Marsh, segir í samtali við New York Times að Shamshud hafi snúist til íslamskrar trúar ekki alls fyrir löngu og í kjölfarið hafi farið að bera á einkennilegri hegðun hjá honum. Shamsud og Nakedra áttu saman tvær stúlkur, 15 og 20 ára, og var ástandið orðið þannig, að sögn Dwayne, að þau forðuðust að láta hann hitta dætur sínar.
Undir það síðasta var Shamsud búsettur í smáhýsi fyrir utan Houston sem hann leigði. Leigusali hans, Asia Maryam, segir að hann hafi unnið heima hjá sér og alltaf borgað leiguna á réttum tíma og ekki verið til neinna vandræða. Hann er sagður hafa dvalið í Egyptalandi í rúma viku á síðasta ári en ekki liggur fyrir hver tilgangur ferðarinnar var.
Asia segir að Shamsud hafi tilkynnt henni fyrir skemmstu að hann væri að flytja til New Orleans á næstu vikum og myndi skila lyklunum að smáhýsinu þegar hann væri búinn að festa sér íbúð í New Orleans. Það síðasta sem Asia frétti af honum var svo eftir hina skelfilegu árás á nýársnótt þar sem 15 saklausir borgarar létu lífið.
Lögregla skoðar nú sögu Shamsud og hvort hann hafi átt sér samverkamenn en lögreglu grunar að sprenging sem varð í Tesla Cybertruck-bifreið fyrir utan hótel í eigu Donalds Trump í Las Vegas tengist hryðjuverkaárásinni í New Orleans.