Tilkynnt var um ungmenni við verslunarkjarna í umdæmi Lögreglustöðvar 3 (Kópavogur og Breiðholt) í gærkvöldi. Fylgdi tilkynningunni að eitt þeirra hefði verið að sveifla kylfu. Þegar lögregla mætti á vettvang voru unglingarnir hins vegar á bak og burt.
Alls voru 89 mál á dagskrá lögreglu í gærkvöld og eru hér listuð þau helstu.
Í umdæmi Lögreglustöðvar 1 í miðbænum var lögregla kölluð til vegna þjófnaðar í tveimur verslunum. Bæði mál voru leyst á vettvangi.
Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir í akstri grunaðir um að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Sumir þeirra voru einnig grunaðir um að aka án ökuréttinda eða brot á reglum um gerð og búnað ökutækja.
Í umdæmi Lögreglustöðvar 2 (Hafnarfjörður – Garðabær) var lögregla einnig kölluð út vegna þjófnaðar í verslun og einnig var það mál leyst á vettvangi.
Einn ökumaður var sviptur ökuréttindum eftir að hafa verið stöðvaður undir áhrifum. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bílum, vegna skorts á tryggingum eða skoðun.
Í umdæmi Lögreglustöðvar 4 (Grafarvogur – Mosfellsbær – Árbær) var ökumaður sektaður eftir að hafa verið að keyra á 138 km/klst hraða þar sem hámarkið var 90.