fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. janúar 2025 18:00

Mynd: Skjáskot Morgunblaðið/RAX

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fimmtudag, þann 16. janúar, var þess minnst að 30 ár eru síðan snjóflóð féll á Súðavík. Snjóflóðið var þá það mannskæðasta hér á landi, 14 íbúar, þar af átta börn létust, og var náið samfélag fyrir vestan harmi slegið, sem og þjóðin öll sem fylgdist með fréttum af hamförunum fyrir vestan.

Sjá einnig: „Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

Morgunblaðið var með ítarlega umfjöllun um snjóflóðið á þriðjudeginum 17. janúar. Aðrir miðlar fjölluðu einnig ítarlega um snjóflóðið og einn af þeim sem stóð vaktina var Steingrímur Sævarr Ólafsson, nú fjölmiðlaráðgjafi og almannatengill, sem mætti snemma morguns á vaktina á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Í færslu sem Steingrímur skrifaði á fimmtudag segir hann að fyrsta verk hafi verið að hringja svokallað löggutékk, „en í því fólst að hringja í helstu lögreglustöðvar á landinu og spyrja hvort eitthvað væri fréttnæmt. Ekkert merkilegt bar á góma fyrr en komið var á Vestfirði. Undarleg svör vöktu athygli mína og mér varð fljótt ljóst að eitthvað hafði komið fyrir.“

Skömmu síðar fengu blaðamenn staðfest að snjóflóð hafði fallið á Súðavík.

„Fréttir þaðan voru óljósar, veður vont en allir voru ræstir út og næstu sólarhringa stóðum við vaktina við að reyna að púsla saman mynd af því hvað hafði gerst.

Þetta var gríðarlega erfiður dagur fyrir alla, að heyra í óttaslegnu fólki sem spurði okkur um örlög fólks, aðstandendur í uppnámi og allir sem einn reyndu fréttamennirnir að sýna nærgætni í fréttaflutningi og virðingu við íbúa Súðavíkur.

Það reyndi á marga þennan örlagaríka dag, sem og næstu dagana á eftir, og við sem stóðum fréttavaktina á Stöð 2 og Bylgjunni fengum stundum óþægilega mikla innsýn í persónulega harmleiki fólks.“ 

Forsíða Morgunblaðsins 18. janúar 1995 er flestum enn í fersku minni. Mynd: Skjáskot timarit.is.

Svæðið lokað fréttamönnum og ljosmyndurum

Í gær ræddi Steingrímur þennan örlagaríka mánudag við Ásgeir Páll Ágústsson og Jón Axel Ólafsson í síðdegisþætti þeirra á K100. 

„Við fengum óljósar fregnir frá hinum og þessum að eitthvað hefði gerst í Súðavík. Það reyndist vera þetta hörmulega snjóflóð. Þá tók við atburðarás næstu sólarhringanna sem var skelfileg og erfið. Maður þurfti oft að setja sig í furðulegar stellingar á fréttastofunni,“ lýsti Steingrímur í þættinum.

Fréttamenn frá Stöð 2 voru sendir landleiðina og með varðskipi en Steingrímur og aðrir samstarfsmenn hans unnu frá Reykjavík. 

„Það var ofboðslega vont veður. Menn voru lengi á leiðinni, og þegar þeir loksins komu á staðinn var þeim ekki hleypt inn. Þannig að við vorum í raun að fjarstýra þessu héðan úr Reykjavík. Síminn var lífæðin okkar á þessum tíma,“ segir Steingrímur. Hann segir að svæðinu hafi verið lokað af og blaðamönnum og ljósmyndurum ekki hleypt inn. Aðeins ein mynd er til af leitinni sjálfri. 

„Það var ofboðslega furðulegt að menn skyldu ekki átta sig á því, á þessum tíma, hversu ómetanlegt það væri að eiga – fyrir til dæmis mögulega rannsókn – myndefni, viðtöl og sögur. Það er auðvelt að dæma eftir á, en ég get sagt að við vorum forviða á þessari afstöðu að hleypa engum að,“ segir Steingrímur í þættinum. 

Hringt á fréttastofuna til að fá upplýsingar um afdrif ættingja

Jón Axel starfaði þá einnig í fjölmiðlum og man hvernig andrúmsloftið var í vinnunni og í samfélaginu. „Maður fann hvernig samfélagið varð eins og einn einstaklingur sem tók þetta allt á herðarnar með einhverjum hætti.“

„Samhugur í verki. Það var það sem gerðist. Það urðu allir Súðvíkingar með einum eða öðrum hætti. Þegar myndin fór smám saman að skýrast, tóku þetta allir inn á sig,“ tekur Steingrímur undir.

„Fjöldi ættingja Súðvíkinga hringdi inn og spurði: Vitið þið eitthvað? Ég næ ekki í þennan. Eða: Þessi þögn er óþægileg. Veistu eitthvað? Ég þekki marga þarna.“ 

„Þrjátíu árum síðar er þessi fréttavakt 16. janúar 1995 ljóslifandi minning, erfið minning. Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum. Þeim sem enn eiga um sárt að binda vegna þessa skelfilega atburðar sendi ég hlýjar hugsanir og góða strauma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Í gær

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis