Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur ákært fimmtugan íslenskan vörubílstjóra fyrir að keyra fullur og ökuleyfissviptur. Þegar lögregla stöðvaði vörubílstjórann þóttist hann vera annar maður.
Vörubílstjórinn var stöðvaður við akstur föstudaginn 19. júlí á síðasta ári á hringveginum austan við Vík í Mýrdal. Þegar hann var stöðvaður gaf hann ranglega upp nafn annars vörubílstjóra, sem er tveimur árum eldri en ber sama fornafn.
Komst í ljós að vörubílstjórinn var ekki sá sem hann sagðist vera. Þar að auki var hann próflaus, sviptur ökuréttindum ævilangt, og fullur. Í blóði hans mældist 2,36 prósenta vínandamagn.
Þar að auki kom í ljós að vörubílstjórinn hafði ekki virt hvíldarskyldu. Hún er fjórir og hálfur klukkutími en vörubílstjórinn hafði ekið frá 5:47 til 11:38, eða í tæpan fimm og hálfan tíma.
Ekki náðist að birta vörubílstjóranum ákæru og var ákæran því birt með fyrirkalli í Lögbirtingablaðinu. Er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar fyrir bæði umferðarlagabrot og rangar sakargiftir, sem og að sæta sviptingu ökuréttinda og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Sæki hann ekki þing má hann búast við að fjarvist hans verði metin til jafns við játningu og hann dæmdur fjarstaddur.