Herdeildin átti að vera fyrsta stóra úkraínska herdeildin sem hlyti þjálfun erlendis. Hún átti að fá fullkomnustu vopnin og þjálfun samkvæmt NATÓ-standördum. Þetta átti að vera hluti af því að snúa gangi stríðsins Úkraínu í vil.
En áður en herdeildin hleypti svo mikið sem einu skoti af á vígvellinum hafði þriðjungur hermannanna, sem áttu að vera 5.000-6.000 talsins, stungið af eða verið fluttir til annarra herdeilda.
Herinn viðurkennir nú að vandamál hafi komið upp með herdeildina og að lærdómur verði dreginn af þessu.
2.000 menn úr herdeildinni voru sendir í fjögurra mánaða þjálfun í Frakklandi síðasta vor. Þá fóru vandamálin strax að gera vart við sig því 50 af hermönnunum létu sig hverfa.
Þegar þjálfuninni var lokið og herdeildin var send á vígvöllinn í nóvember, komu enn fleiri vandamál upp.
Censor.net, sem er vefsíða rekin af gömlum úkraínskum stríðsfréttamanni, segir að herdeildin hafi verið send til orustu án þess að hafa dróna eða annan búnað til rafræns hernaðar. Síðan var byrjað að taka hermenn úr herdeildinni til að fylla í skörð í öðrum herdeildum. Þess utan voru franskar fallbyssur sendar til annarra herdeilda til að fylla upp í skörð hjá þeim.
Censor.net segir að áður en herdeildin hleypti fyrsta skotinu af hafi 1.700 af liðsmönnum hennar annað hvort verið búnir að stinga af eða komnir til annarra herdeilda.
Gripið var til þess ráðs að reka yfirmenn herdeildarinnar en þetta leysti ekki stjórnunarvandann og þegar herdeildin lenti loks í bardögum við Pokrovsk varð hún fyrir miklu mannfalli vegna fyrrgreindra vandamála.
Le Monde sagði í byrjun árs að herdeildin hafi nú verið leyst upp og hermennirnir sendir til annarra herdeilda.