Nýlega birtist á vef Reykjavíkurborgar kæra leikskólans Sælukots á hendur Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna lokunar á leiksskólanum þann 5. nóvember 2024. Heilbrigðiseftirlitið lét loka skólanum vegna ummerkja um músagang en leikskólastjórinn, Gunnlaugur Sigurðsson, kærði þá ákvörðun 10. desember Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hefur ekki úrskurðað í málinu en hér má lesa kæru leikskólans og andsvör heilbrigðiseftirlitsins.
Í kæru leikskólans segir:
„Sú aðgerð fulltrúa heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að fyrirskipa tafarlausa lokun leikskólans Sælukots um miðjan eftirmiddag þriðjudaginn 5. nóvember 2024 var hóflaus og án málefnalegrar ástæðu. Sú heilbrigðisvá sem gæti réttlætt svo harkalega aðgerð var ekki fyrir hendi. Ef bara er tekið tillit til þess að börnin áttu á þessari stundu einn til tvo tíma eftir af veru sinni í leikskólanum þennan dag blasir við fáránleiki þessarar fyrirskipunar sem réttlættist af ástandi sem hafði sýnilega varað um nokkurn tíma. Ómögulegt er að draga aðrar ályktanir af þessu framferði fulltrúanna en þær, að þeir hafi viljað neyta valds síns til að valda leikskólanum sem mestum skaða. Það er sálfræðileg spurning hver hvöt sjálf valdbeitingin var þeim í gerðum þeirra og að hvaða marki hún óx í sinni þeirra í samskiptum þeirra við rekstrarstjóra leikskólans . Það er spurning um andúð þeirra á leikskólanum að vilja valda honum þeim augljósa skaða sem fyrirskipunin um lokun hans myndi valda.“
Leiksskólastjórinn viðurkennir að einhver músagangur hafi verið en segir hann hafa verið í lágmarki og starfsfólk skólans hafi haft stjórn á aðstæðum og hafi beitt réttum aðferðum bæði hvað varðar hreinlætisráðstafanir og til að binda enda á músaganginn sem hann segir að hafi verið bundinn við haustið áður en tekur að frysta. Mýs hafi komið annað slagið inn um opnar útidyrnar en þær hafi ekki verið snertingu við mat eða hreinlætisaðstöðu barna og starfsfólks.
Leikskólastjóranum þykir sérstaklega harkalegt að fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins krafðist þess að skólanum yrði lokað á stundinni, þ.e. um kl. 14 í eftirmiðdaginn, og hringt yrði í foreldra og þeim gert að sækja börnin. Segir leikskólastjórinn að það hafi verið fullkomlega óþörf ráðstöfun. Segir í kærunni að hægt hefði verið að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir og úrbætur vegna músagangsins án þess að loka skólanum.
Ennfremur segir í kærunni:
„Leikskólinn Sælukot kærir hér með fulltrúa heilbrigðiseftirlits Reykjavikur sem komu í leikskólann þriðjudaginn 5.11.2024 fyrir
a) hóflausa beitingu valds með fyrirskipun þeirra um lokun, hvað þá tafarlausa lokun leikskólans um miðjan eftirmiðdag þennan dag.
b) ófaglega og ruddalega framkomu við rekstrarstjóra leikskólans í þeirri heimsókn;
c) einstrengislegrar tilvísunar í reglugerðartexta án tillits til aðstæðna eða almennrar skynsemi;
e) að gera ekki greinarmun á daglegum þrifum og djúpþrifum í húsnæði leikskólans með það að markmiði að réttlæta heilsufarslega nausðyn á lokun leikskólans; Engin hlutlæg rök hafa verið sett fram um nauðsyn þessarar fyrirskipunar.
Það út af fyrir sig staðfestir að engin heilsufarsleg vá vofði yfir börnum eða starfsmönnum leikskólans. Flestar athugasemdir fulltrúanna um þrif og búnað í leikskólanum beindust ekki að daglegum þrifum heldur vörðuðu nauðsyn á allsherjarþrifum og með því óþrif sem börn og starfsmenn voru ekki í snertingu við. Það er síðan auðvitað ómálefnalegt og beinlínis óvísindalegt að gera ráð fyrir að í hvers skipti sem mús sleppur inn um dyr á leikskóla skuli honum lokað uns músin hafi verið fjarlægð. Öll framganga fulltrúanna einkenndist af hömlulausum vilja til valdbeitingar og allur eftirleikurinn hefur miðast við að réttlæta þessa valdbeitingu. Skýrslur fulltrúanna vitna um þann vilja þar sem í mörgum atriðum er horft fram hjá heilbrigðri skynsemi og aðstæðum eða einfaldlega farið rangt með staðreyndir máls. Eftir stendur að þeim ábendingum, aðfinnslum og kröfum um úrbætur sem standast mál hefði verið hægt að mæta með viðeigandi úrbótum án lokunar.“
Í andsvari heilbrigðiseftirlitsins segir að við eftirlit með húsnæði leikskólans hafi komið í ljós óþrifnaður og mikil ummerki um meindýr. Hafi húsnæðið verið metið heilsuspillandi. Bent er á að lokunin hafi verið tímabundin og leikskólinn hafi verið opnaður aftur eftir að nauðsynlegar úrbætur höfðu verið gerðar. Því sé erfitt að átta sig á hvað felist í kærunni nema það sé þá krafa um viðurkenningu á því að lokun skólans hafi verið óréttmæt.
Telur heilbrigðiseftirilitið rétt að vísa kærunni frá, m.a. vegna þess að leikskólinn hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þar sem hann hafi verið opnaður aftur. Ennfremur segir í andsvarinu, um ástandið í húsnæði leikskólans þegar eftirlitið fór fram:
„Líkt og fram kemur í eftirlitsskýrslu, dags. 5. nóvember og í bréfi dags. 6. nóvember 2024 var ákvörðun um stöðvun starfseminnar fyrst og fremst tekin vegna mikilla ummerkja um meindýr í húsnæðinu. Heilbrigðisfulltrúar sáu músaskít víða í eldhúsi, í skúffum og skápum undir innréttingu, við kæli og uppþvottavél og einnig á borðbúnaði, þ.á.m. diskum og bökkum. Músagildrur voru í skáp í eldhúsi og inn á þurrvörulager. Einnig voru ummerki um meindýr í öðrum rýmum húsnæðisins. Samkvæmt 17. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 903/2024 telst húsnæði heilsuspillandi þegar ástand þess er á þann hátt að það hefur áhrif á flesta eða alla sem þar dvelja að jafnaði og er skaðlegt heilsu þeirra, t.d. vegna meindýra. Af ofangreindum ástæðum mátu heilbrigðisfulltrúar húsnæðið heilsuspillandi og töldu nauðsynlegt að starfsemi leikskólans yrði stöðvuð til bráðabirgða skv. 63. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti þar til meindýrum væri útrýmt, húsnæðið þrifið og gert meindýrahelt.“
Segir síðan að ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar um að láta loka leiksskólanum Sælukoti þann 5. nóvember síðastliðinn.
Sjá nánar hér.