Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest synjun Reykjavíkurborgar við beiðni fréttamanns RÚV um að fá afhent gögn sem varða uppgjör á orlofsgreiðslum til Dags B. Eggertssonar þegar hann lét af embætti borgarstjóra í janúar 2024.
Uppgjörið reyndist umdeilt en alls fékk Dagur 9,6 milljónir króna og til viðbótar við það fékk hann 9,7 milljónir króna í biðlaun.
Úrskurðurinn var kveðinn upp 19. desember síðastliðinn en ekki birtur fyrr en í dag.
Í honum kemur fram að fréttamaðurinn óskaði eftir gögnunum frá Reykjavíkurborg í ágúst síðastliðnum. Viku síðar fékk hann synjun frá borginni og kærði hana samdægurs til úrskurðarnefndarinnar.
Fréttamaðurinn óskaði eftir öllum gögnum og samskiptum í tengslum við launauppgjör og orlofsgreiðslur til Dags. Í svari borgarinnar var fréttamanninum veittur aðgangur að tveimur þeirra gagna sem óskað var eftir, en synjað um aðgang að fimm öðrum gögnum á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða í skilningi upplýsingalaga. Taldi borgin að þau ákvæði laganna sem veittu undantekningu frá þeirri reglu að aðgangur að vinnugögnum væri óheimill ættu ekki við í þessu tilviki.
Úrskurðarnefndin fékk þau gögn sem um ræðir afhent frá borginni en þurfti þó að ítreka beiðni sína um afhendingu þar sem í fyrstu barst ekkert svar.
Borgin hélt fast við þá afstöðu að um væri að ræða vinnugögn og því bæri henni engin skylda samkvæmt upplýsingalögum að afhenda fréttamanninum þau.
Gögnin sem málið snýst eru fimm tölvupóstar.
Í fyrsta lagi tölvupóstur deildarstjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til launaskrifstofu miðlægrar stjórnsýslu, dagsettur 24. nóvember 2023.
Í öðru lagi tölvupóstur launaskrifstofu miðlægrar stjórnsýslu til deildarstjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dagsettur. 28. nóvember 2023.
Í þriðja lagi tölvupóstsamskipti sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs og vinnslustjórnar launaskrifstofu, dagsett 31. janúar 2024.
Í fjórða lagi tölvupóstsamskipti sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs og vinnslustjórnar launaskrifstofu, dagsett 31. janúar 2024.
Í fimmta lagi tölvupóstsamskipti sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs og skrifstofustjóra skrifstofu kjaramála, dagsett 16., 19., 20. og 23. febrúar 2024.
Úrskurðarnefnd upplýsingamála fór yfir efni tölvupóstanna fimm og segir í sinni niðurstöðu að hún fallist á að þeir hafi allir verið unnir í þeim tilgangi að undirbúa það mál sem lyktaði með greiðslum Reykjavíkurborgar 1. mars og 1. apríl 2024, vegna ótekins orlofs Dags. Verði því að leggja til grundvallar að umrædd gögn hafi verið rituð eða útbúin við undirbúning ákvörðunar í skilningi upplýsingalaga. Þá verði einnig ráðið af efni póstanna að þeir hafi verið unnir af starfsmönnum Reykjavíkurborgar til eigin afnota. Þá verði ekki séð að þeir hafi verið afhentir öðrum.
Nefndin segir því ljóst að um sé að ræða vinnugögn sem séu almennt undanþegin afhendingu á grundvelli upplýsingalaga.
Í lögunum eru þó ákvæði um aðstæður þar sem stjórnvaldi ber að afhenda vinnugögn ef óskað er eftir því.
Reykjavíkurborg sagði að ekkert ákvæðanna ætti við um tölvupóstana fimm. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur undir þá niðurstöðu. Nefndin segir að í þeim sé eingöngu að finna samskipti starfsmanna Reykjavíkurborgar, ekki endanlegar ákvarðanir og ekki upplýsingar um málsatvik. Í hluta gagnanna sé vísað til ráðningarbréfs Dags en í gögnunum sé ekki að finna nýjar upplýsingar til viðbótar við það. Þar af leiðandi séu ekki til staðar aðstæður þar sem skylda er til að afhenda þó um vinnugögn sé að ræða.
Synjun borgarinnar var því staðfest og fréttamaður RÚV fær því tölvupóstanna fimm ekki afhenta.