„Fyrir ári fór ég einu sinni í viku í útkall út af veggjalús en í dag er ég kallaður út fimm til sjö sinnum í viku,“ segir Steinar í samtali við Morgunblaðið í dag.
Veggjalúsin er heldur óspennandi gestur en hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum.
„Þegar hungur sverfur að skríða lýsnar fram úr fylgsnum sínum sem oftast eru í námunda við svefnstaði, í sprungum og glufum í tréverki, niður með rúmdýnum, í fellingum með saumum, undir gólflistum, í rafmagnsdósum, á bak við myndir og annað sem hangir á veggjum, laust veggfóður eða glufóttan panel; í stuttu máli hvarvetna þar sem felustaði er að finna,“ segir til dæmis í umfjöllun Erlings Ólafssonar skordýrafræðings á Vísindavefnum.
Steinar segir við Morgunblaðið að lúsin haldi mikið til á hótelum og gistirýmum og hættan sé sú að hún komi með ferðamönnum til landsins.
Ýmsar leiðir eru þó til að uppræta lúsina en Steinar mælir gegn því að fólk reyni það sjálft. Hættan sé sú að lúsin reyni að flýja eitrið og dreifi sér þar með um húsið.
„Það hefur komið fyrir að það hafi þurft að henda öllu út úr húsi eða koma innbúinu fyrir í frystigámi í eina viku þar sem frostið er meira en mínus 18 gráður því eggin drepast ekki fyrr,“ segir hann í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.