Í tilkynningu frá Almannavörnum kemur fram að óvissustig þýði að eftirlit er haft með atburðarás sem gæti á síðari stigum leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.
Eins og komið hefur fram að varð snemma í morgun snörp jarðskjálftahrina í Bárðarbungu.
Í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands sendi frá sér í hádeginu kemur fram að um 130 skjálftar hafi mælst frá því að hrinan hófst og mældist stærsti skjálftinn, 5,1, klukkan 08:05 í morgun. Sautján aðrir skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst og að minnsta kosti tveir þeirra voru yfir 4.
Töluverður ákafi var í hrinunni þangað til um kl. 9 í morgun en þá byrjaði að draga úr ákefðinni, en áfram mælast skjálftar á svæðinu og of snemmt að segja til um hvort hrinan sé að fjara út.
Bent er á það í tilkynningunni að skjálftavirkni í Bárðarbungu hafi aukist síðustu mánuði. Eldstöðin er óvenju stór og margar sviðsmyndir um mögulega þróun.