fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Lögmaður segir yfirvöld beita albanskan múrara óþarfa hörku – Flísalagði í Seðlabankanum en dvelst núna á Hólmsheiði

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. janúar 2025 19:00

Fangelsið Hólmsheiði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aleks Kota er hálfsextugur múrari frá Ablaníu sem hefur dvalist hér á landi undanfarin misseri og unnið við flísalögn fyrir lítið fyrirtæki, MAS múrverk. Síðasta verk Aleks var að flísaleggja í Seðlabankanum á vegum MAS. En núna situr Aleks í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði, eins og ótíndur glæpamaður. Var hann handtekinn á Keflavíkurflugvelli 4. janúar er hann var að koma úr jólafríi hjá ættmennum sínum í Albaníu, og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. janúar.

Aleks er ekki á sakaskrá og hefur ekki gerst sekur um annað en að dveljast án gildandi dvalarleyfis í landinu. Lögmaður hans, Gunnar Gíslason, telur að yfirvöld hafi ekki gætt meðalhófs í aðgerðum gegn Aleks og gerir alvarlegar athugasemdir við þær.

Aleks, sem er fæddur árið 1970, kom hingað til lands snemma árs 2023 á grundvelli atvinnuleyfis vegna sérfræðikunnáttu hjá MAS múrverk. Aleks tefldi fram leyfisbréfi í múraraiðn frá heimalandi sínu, Albaníu. Þann 23. febrúar 2023 fékk hann viðurkenningu á menntun sinni og starfsreynslu í múraraiðn frá Menntamálastofnun. Í kjölfarið sótti hann um atvinnuleyfi hér á landi, sem var gefið út 28. apríl 2023, og hóf hann störf hjá MAS múrverk ehf. í kjölfarið, en atvinnuleyfið var útgefið til eins árs og bundið við þennan tiltekna atvinnurekanda. Atvinnuleyfið rann út 1. mars 2024 og sótti Aleks um endurnýjun þess til eins árs, áður en gildistíminn rann út.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) tilkynnti honum bréfleiðis að ráðuneytið hefði fengið ábendingu um að vafi léki á gildi prófskírteinis sem hann hafi lagt fram. Lék grunur á að menntastofnunin sem gaf prófskírteinið út, Akademia Profesionale Vizion, væri ekki til. Í byrjun júní 2024 var honum síðan tilkynnt að ráðuneytið hefði ákveðið að afturkalla ákvörðun um starfsleyfi hans og leyfisbréf hans í múraraiðn.

Aleks krafðist bréfleiðis endurskoðunar á þessari ákvörðun en því bréfi hans var ekki svarað. Seint í október fékk hann hins vegar bréf frá Vinnumálastofnun þess efnis að stofnunin hefði hafnað beiðni hans um endurnýjun á atvinnuleyfi.

Gunnar Gíslason lögmaður segir að ábending um að Aleks hafi ekki lagt fram lögmæt gögn um menntun sína sé engan veginn rannsökuð að fullu. Rannsóknin hafi falist í því einu að senda fyrirspurn í tölvupósti um lögmæti Akademia Profesionale Vizion til menntamálaráðuneytis Albaníu. Ekkert svar barst við fyrirspurninni en Gunnar segir að erindið hefði átt að senda á ráðuneyti iðnaðar- og íþróttamála í því landi. Segir í andmælabréfi sem Gunnar hefur skrifað fyrir hönd Aleks að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína í málinu með því að hafa samband við viðeigandi ráðuneyti í Albaníu né rannsaka málið til hlítar.

Var meinað um að velja sér verjanda

Aleks var í lausu lofti vegna neitunar yfirvalda á framlengingu á atvinnu- og dvalarleyfi hans, en hann hafði kært úrskurðina og beið framgang málsins í kerfinu. Í desember fór hann í jólafrí til fjölskyldu sinnar í Albaníu en þegar hann sneri hingað til lands í byrjun árs var hann handtekinn á Keflavíkurflugvelli og skömmu síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald í Fangelsinu Hólmsheiði til 17. janúar. Gæsluvarðhaldsúrskurðinn má lesa hér.

Við handökuna var Aleks meinað að velja sér Gunnar sem verjanda og var honum skipaður annar verjandi. Gunnar telur þá ákvörðun vera tilhæfulausa, sem og almennt harkalegar aðfarir yfirvalda að skjólstæðingi hans.

„Hann biður um mig sem verjanda sinn og hann fær mig ekki. Honum er neitað um mig. Réttur manna til að velja sér verjanda er þarna ekki virtur. Honum er tilnefndur og síðar skipaður fyrir dómi annar verjandi,“ segir Gunnar í viðtali við DV. Hann telur að þau lagaskilyrði sem þarf til að neita manni um tiltekinn verjanda hafi engan veginn verið fyrir hendi hér:

„Til að mönnum sé meinað um þennan rétt þarf eitt af tvennu að koma til, annars vegar að það sé sýnt að verjandi muni tefja rannsókn málsins eða þá að hann sé vitni í málinu. Hvorugt á við hér. Ég er ekki meira vitni en það að ég bara þekki hans mál afskaplega vel og þekki alla þessa sögu, hvað er búið að ganga á. Hann nefnir í skýrslutöku lögreglu að hann sé með mál í kæruferli. Lögregla gerir engan reka að því að skoða það sérstaklega og uppfyllir ekki rannsóknarskyldu sína í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins og ákvæði 7. kafla sakamálalaga.“

Gunnar telur að lögreglan á Suðurnesjum hafi horn í síðu hans og það sé hin raunverulega ástæða fyrir því að Aleks fékk ekki að tilnefna hann sem verjanda sinn. „Mín tilfinning er sú að ástæða þess að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kallaði mig ekki til sé andúð þeirra á mér, sem ég uppsker fyrir það eitt að vinna vinnuna mína.“

Fordómar gegn Albönum

„Þessi rosalega harka gegn honum slær mig,“ segir Gunnar. „Það var í fyrsta lagi ekki búið að skora á hann að yfirgefa landið eftir að atvinnuleyfið hans var afturkallað. Það hefði mátt að mínu mati beita vægara úrræði, t.d. tilkynningarskyldu eða einhverju slíku. Gæsluvarðhald er eins íþyngjandi úrræði og mögulegt er. Þess utan var ekki komið af stað neitt mál sem gat leitt til brottvísunar þegar þessi gæsluvarðhaldskúrskurður er kveðinn upp. Mín tilfinning er sú að það sé eins og lögreglan hafi annað hvort af stórkostlegu gáleysi eða hreinlega af ásetningi leynt ákveðnum staðreyndum málsins fyrir dómara. Þannig að þetta var þá niðurstaðan.“

Albanir hafa verið töluvert í fréttum hér á landi í tengslum við fíkniefnabrot og aðra brotastarfsemi. Hins vegar skal áréttað að ekkert hefur komið fram sem bendir til að Aleks Kota hafi nein tengsl við brotastarfsemi. Fyrirtækið sem hann starfaði fyrir, MAS múrverk, hefur fengið góðar umsagnir hjá viðskiptavinum á Facebook og eigandi fyrirtækisins ber Aleks mjög vel söguna í samtali við DV. Segir hann vera mjög færan fagmann, sérstaklega við flísalagningu, hann sé auk þess traustur og heiðarlegur.

DV spurði Gunnar lögmann um hvort orðspor Albana hér á landi eigi einhvern hlut að máli varðandi þá hörku sem umbjóðandi hans hefur verið beittur, og hvort hreinlega sé um útlendingaandúð að ræða. Gunnar segir:

„Ég tel að það sé almennt innan lögreglunnar, sérstaklega á Suðurnesjum, mjög neikvætt viðmót í garð Albana. Það sést t.a.m. vel í þeim mikla fjölda frávísana sem eru á landamærunum og lögreglustjórinn gortir sig reglulega af í fjölmiðlum. Þær snúa að miklum meirihluta að Albönum. Burtséð frá bakgrunni þeirra og ástæðum fyrir komu hingað til lands. Fyrirmæli til lögreglumanna á Keflavíkurflugvelli virðast vera þau að snúa þeim öllum við, sama hvað. Og reglur stjórnsýsluréttarins eru þá oft virtar að vettugi, með tilheyrandi tjóni fyrir aðilana sem og skattgreiðendur, enda er ríkið bótaskylt ef ekki er staðið rétt að málum.“

Telur forsendur gæsluvarðhalds brostnar

Við vinnslu fréttarinnar barst úrskurður frá Útlendingastofnun þess efnis að umsókn Aleks um endurnýjun á dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið synjað. Gunnar segir í samtali við DV að ákvörðunin verði kærð til kærunefndar útlendingamála. Segir hann að það fresti sjálfkrafa framkvæmd brottvísunar Aleks frá landinu sem á að framkvæma í kjölfar gæsluvarðhalds hans.

Aðspurður hvort þetta komi í veg fyrir mögulega endurnýjun gæsluvarðhalds, segir Gunnar:

„Ég er búinn að skila kæru til Kærunefndar Útlendingamála og þar með eru forsendur gæsluvarðhaldsins brostnar að mínu mati, enda þó til staðar sé nú í kerfinu mál sem leitt getur til brottvísunar, þá er ekki hægt að halda honum í varðhaldi næstu sex mánuðina á meðan beðið er eftir úrskurði kærunefndarinnar. Enda frestar kæra sjálfkrafa framkvæmd og áframhaldandi varðhald sem grundvallast á brottflutningi, þegar ekki er mögulegt að framkvæma hann, væri fullkomlega galið. Að þessu sögðu hef ég nú þegar skorað á Lögreglustjórann á Suðurnesjum að sleppa Aleks úr haldi án tafar. Það verður áhugavert að sjá hvort orðið verði við þeirri kröfu eða ekki.

Uppfært kl. 17:30:

Nýjar vendingar urðu í málinu við vinnslu fréttarinnar. Aleks verður sleppt af Hólmsheiði hvað úr hverju og hann settur í fjögurra vikna tilkynningarskyldu á grundvelli 114. gr. útlendingalaga. Sennilega daglega, að sögn Gunnars, lögmanns hans.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Það versta í 17 ár
Fréttir
Í gær

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íbúar á Seltjarnarnesi klóra sér í kollinum yfir hundarifrildi Bubba og Björns

Íbúar á Seltjarnarnesi klóra sér í kollinum yfir hundarifrildi Bubba og Björns