fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 14. janúar 2025 16:36

Grindavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bæjarráð Grindavíkur hafnaði því á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag að nýta forkaupsrétt sinn að fiskiskipinu Sturla GK 12. Skipið hefur nú fengið nýtt nafn og heimahöfn þess hefur verið flutt úr bænum en fiskveiðiheimildirnar virðast þó halda sig að töluverðu leyti enn á staðnum.

Samkvæmt fundargerð bæjarráðs var bænum boðinn forkaupsréttur á skipinu í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Tilefnið var að útgerðarfélagið Ganti ehf. hafði samið um kaup á skipinu, veiðarfærum og aflahlutdeildum í fisktegundum sem gáfu samtals 25,2 þorskígildistonna aflamark.

Ganti kaupir skipið sem samkvæmt skipaskrá 200 mílna, sjávarútvegsvefs Morgunblaðsins, er skuttogari, af útgerðarfélaginu Þorbirni. Kaupin eru hluti af uppskiptingu Þorbjarnar á milli afkomenda stofnanda fyrirtæksins, Tómasar Þorvaldssonar, en samkvæmt tilkynningu frá því síðasta haust stóð til að skipta fyrirtækinu í þrennt og að barnabörn Tómasar myndu stýra hverju og einu þeirra. Ætlunin var að hvert fyrirtæki tæki við einu af þremur skipum Þorbjarnar.

Ganti var stofnað í október og eigendur þess eru Gerður dóttir Tómasar, sem er stjórnarformaður, maður hennar Jón Emil Halldórsson og sonur þeirra Helgi Hrafn Emilsson.

Sturla GK 12 er samkvæmt Fiskistofu 485.67 brúttótonn og 28.93 metrar að lengd. Skipið kom fyrst til landsins 2007 og var heimahöfn þess Vestmannaeyjar. Fyrst hét skipið Vestmannaey, síðan Smáey en þegar Þorbjörn keypti skipið árið 2020 og flutti það til Grindavíkur fékk það nafnið Sturla GK 12.

Aflinn öruggur

Samkvæmt Fiskistofu tók Ganti við eignarhaldi Sturlu á Þorláksmessu og 10. janúar síðastliðinn, daginn eftir bæjarráðsfundinn í Grindavík þar sem fallið var frá forkaupsrétti á skipinu, var heimahöfn skipsins flutt til Grundarfjarðar og það er nú gert út af útgerðarfélaginu Guðmundi Runólfssyni hf. en er enn í eigu Ganta. Sturla hefur þar að auki fengið nýtt nafn og heitir nú Guðmundur SH 235.

Líklega ástæða fyrir því að Grindavíkurbær hreyfði litlum andmælum við sölunni er að stór hluti aflahlutdeildar Sturlu hefur verið fluttur yfir á togarann Huldu Björnsdóttur GK 11 sem er 1.864 brúttótonn að þyngd og 57,91 metrar að lengd og er með heimahöfn í Grindavík. Togarinn var smíðaður fyrir Þorbjörn og kom til landsins í haust eftir að smíðinni var lokið. Smíði skipsins var langt komin þegar ákveðið var að skipta Þorbirni í þrennt en þá hafði ekki verið ákveðið hvað af nýju fyrirtækjunum þremur myndi taka við skipinu.

Ganti tók hins vegar við eignarhaldinu á Huldu Björnsdóttur í lok árs og flutti síðan stærsta hlutann af aflahlutdeild Sturlu yfir á nýja togarann, í gær. Þótt Sturla sé farinn frá Grindavík fóru veiðiheimildirnar því að mestu leyti ekki fet.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir

Neitaði að gefa eftir flugvélarsæti sitt til barns í frekjukasti – Dómstólar taka málið fyrir
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íbúar á Seltjarnarnesi klóra sér í kollinum yfir hundarifrildi Bubba og Björns

Íbúar á Seltjarnarnesi klóra sér í kollinum yfir hundarifrildi Bubba og Björns