Geirdís Hanna Kristjánsdóttir, missti heimili sitt í bruna í hjólhýsabyggðinni á Sævarhöfða í Reykjavík aðfararnótt 8. janúar síðastliðins.
Í fréttum sem birtust eftir brunann kom fram að eldur kviknaði í hjólhýsi við hliðina á húsbíl Geirdísar. Í brunanum varð altjón á tveimur hýsum og tvö önnur skemmdust, annað þeirra heimili Geirdísar. Þétt uppröðun hjólhýsanna á Sævarhöfða gerði það að verkum að eldurinn gat breiðst út með slíkum hraða.
Tík Geirdísar, Tinna, vakti hana, þessa örlagaríku nótt, en þær hafa verið heimilislausar síðustu daga og segir Geirdís í samtali við DV: „Ég er bara pokakerling á milli vina og ættingja.“
Vinkona hennar og skólasystir ásamt hennar vinkonu hafa stofnað söfnunarreikning til að styrkja Geirdísi.
„Því ég er nokkuð viss um að tryggingafjárhæðin sem ég mun fá, á ekki eftir að duga til kaupa á því heimili sem ég var byrjuð að safna mér fyrir. Sem er ekki stór upphæð ennþá, þar sem ég bjóst við að búa á þessu heimili mínu nokkur ár til viðbótar.“
Aðspurð um hvað nýtt hjólhýsi kosti og hvað þurfi fjárhagslega til að hún geti komið undir sig fótunum á ný segir Geirdís:
„Ég var komin með augastað á hýsi sem ég var byrjuð að safna mér fyrir og fann svoleiðis til sölu á 4 milljónir. Það er agalega erfitt að vera inn á öðru fólki, þó það sé allt af vilja gert til að skjóta yfir okkur Tinnu þaki.“
Þeir sem vilja styrkja Geirdísi og Tinnu til að koma sér upp nýju heimili geta lagt inn á neðangreindan reikning, sem er á nafni vinkonu hennar Ingu Völu:
Reikningur: 2200 – 26 – 115511
Kennitala: 080370-4159
„Ef einhver getur látið nokkrar krónur af hendi rakna þætti mér einstaklega vænt um það, margt smátt gerir eitt stórt.“
Þetta er í þriðja sinn sem Geirdís missir heimili sitt í eldsvoða. Sumarið 1978 missti hún föður sinn í eldsvoða á Siglufirði. Veturinn 1990 missti hún heimili sitt á Akureyri þegar kviknaði í hjá nágranna hennar.
Geirdís telur borgaryfirvöld bera ábyrgð og finna verði byggðinni annan og öruggari stað. Fulltrúi borgaryfirvalda sagði á RÚV í júlí 2023 að hjólhýsabyggðin yrði einungis á svæðinu til skamms tíma þar sem finna þyrfti betri staðsetningu. Hjólhýsin og húsbílarnir voru áður í Laugardalnum. Geirdís sagði við Vísi daginn sem bruninn varð að ekkert hefði heyrst frá borgaryfirvöldum.
Í færslu Geirdísar á Facebook segir hún:
„Jafn þakklát og ég er fyrir góða og persónulega umfjöllun fjölmiðla varðandi þennan hræðilega atburð, er ég jafn sár yfir hversu hratt hún týnist í hafi allskyns frétta, sem dælast inn dag hvern. Mér hefði þótt eðlilegt að þessu yrði fylgt eftir, reynt að ná í borgarstjórn og þá sérstaklega borgarstjóra og krefjast svara um hvort honum þyki þetta bara allt í lagi, og ætli að nota þetta sem afsökun og ástæðu til að aðhafast ekkert í þessum málaflokki.“
Aðspurð um hvort Geirdís hafi eitthvað heyrt frá borginni sex dögum eftir brunann segir hún:
„Enginn frá borginni hefur haft samband. Er ennþá að eiga við tryggingarnar, þar sem þetta þarf að fara allt út af mínum tryggingum, því íbúi hýsisins sem eldsupptökin urðu er ótryggður.“